Nú hafa vísindamenn komist að því að stærsta tungl Satúrnusar, Títan fjarlægist plánetuna hraðar en haldið hafði verið. Í raun 100 sinnum hraðar en talið var fram að þessu, sem svarar til 11 sentimetra á ári. Vísindamenn segja að þetta sé mikilvæg vitneskja sem hjálpi þeim að skilja hvernig plánetur, tungl og hringir þróast.
Þegar Títan fjarlægist Satúrnus, gerist það vegna þess að þyngdarkrafturinn á milli plánetunnar og tunglsins fær þau til að fjarlægjast hvort annað. Það sama gerist á milli jarðarinnar og tunglsins, en það fjarlægist jörðina um 3,8 sentimetra á ári. Með tímanum mun tunglið fjarlægjast jörðina á minni hraða, en fræðilega þýðir flótti tunglsins að eftir milljarða ára verður það svo langt frá jörðinni að það mun taka það 47 daga að fara í kringum jörðina, í dag tekur það um það bil mánuð. Áður en þetta gerist munu þó bæði sólin og jörðin farast.
Nú þegar vísindamenn hafa komist að því að Títan færist um 11 sentimetra frá Satúrnusi á ári geta þeir notað þá vitneskju til þess að átta sig á því hvernig kerfi hringa og tungla um Satúrnus hefur þróast. Í dag er vitað að Satúrnus varð til þegar sólkerfið varð til, fyrir um 4,6 milljörðum ára, en mikil óvissa hefur verið um það hvenær tungl plánetunnar urðu til. Nýjar mælingar sýna að tunglin hafi í upphafi verið mun nær plánetunni, sem bendir til þess að tunglkerfið breytist hraðar en vísindamenn höfðu talið.
Títan mun halda áfram að fjarlægjast Satúrnus, þetta mun þó ekki hafa nein áhrif á líftíma plánetunnar í sólkerfinu.