Chicago Sun Times greinir frá þessu.
Þetta er mesti fjöldi morða sem framinn hefur verið á einum sólarhring síðan háskólinn hóf mælingar sínar árið 1961. Tölurnar sýna einnig að 25 morð voru framin frá því klukkan 19:00 föstudaginn 29. maí til klukkan 23:00 sunnudaginn 31. maí. Helgin var sú blóðugasta í borginni á seinni tímum.
Chicago er þekkt fyrir háa glæpatíðni, algengt var að framin væru um 900 morð á ári í borginni á tíunda áratug síðustu aldar.
Einn vísindamannanna sem vann að skýrslunni segist aldrei hafa séð annað eins. Fyrir 31. maí var mesti fjöldi morða á einum degi 13, en það var hinn 4. ágúst 1991.
Líkt og í flestum öðrum stórborgum í bandaríkjunum hefur verið mikið um mótmæli í Chicago í kjölfar morðsins George Floyd. Borgarstjórinn, Lori Lightfoot, segir að neyðarlínan hafi móttekið yfir 65 þúsund símtöl hinn 31. maí. Það er 50 þúsund meira en venjulegt er.
Prestur að nafni, Michael Pfleger, segir í viðtali við Chicago Sun Times að vegna allra mótmælanna séu færri lögregluþjónar á ferðinni en venjulega. Hann segist hafa heyrt fólk segja frá því að lögreglan hafi hvergi verið sjáanleg og að hún geri ekkert. Hann bendi á að minnihlutahópar í borginni séu sérstaklega reiðir þessa dagana þar sem kórónavírusinn hafi meðal annars haft í för með sér aukið atvinnuleysi og fjölgun heimilislausra. Dauði George Floyd hafi virkað sem olía á eldinn.
Svartir, ungir menn eru í meirihluta, bæði meðal þeirra sem eru myrtir og þeirra sem fremja morð í borginni, segir Chicago Sun Times.