Kvöldskemmtun Kormáks og Skjaldar markar upphaf jólaundirbúnings hjá smekkfólki bæjarins. Skemmtunin fer fram í Þjóðleikhúskjallaranum þriðjudagskvöldið 28. nóvember, húsið opnar kl. 20:00 og skemmtunin hefst kl. 21:00.
Líkt og fyrri ár munu Hringir sjá um undirspil á meðan sýningu stendur. Hresst og skemmtilegt fólk mun sýna brot af þeim fatnaði sem fæst í Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar og Kvenfataverzlun Kormáks & Skjaldar.
Á milli tískusýninga verða tónlistaratriði, uppistand og óvæntar uppákomur í höndum velunnara verzlananna. Í ljósi reynslu fyrri ára eru allir hvattir til þess að mæta stundvíslega, enda er reynsla okkar að færri komast að en vilja. Aðgangur ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.