Stórar, fallegar flyksur sem falla rólega af himnum ofan
Orðabanki Birtu: Hundslappadrífa
Nú þegar snjóað hefur í Esjuna er tilvalið að fjalla um þetta skrítna og skemmtilega orð yfir uppáhaldstegund okkar af snjókomu, – nefnilega þessar fallegu mjúku flyksur sem minna á hinn fullkomna jólasnjó. Ævintýraleg Disney-jól.
Orðið hundslappadrífa er myndað úr samsetta orðinu hunds-lappir og orðinu drífa sem merkir einfaldlega snjókoma. Hundslappadrífa er mikil og stórflygsótt snjókoma í logni, einnig nefnd skæðadrífa eða logndrífa. Fyrir vestan er snjókoma í logni einnig nefnd kafaldsmyglingur, hjaldur, lognkafald eða ryk.
„Þau tóku undir sig stökk, hún á undan, og hnipruðu sig í skjól undir slútandi kletti og horfðu um stund agndofa á haglið, hvernig það buldi á fjörugrjótinu; smámsaman mýktist það, breyttist fyrst í hundslappadrífu, síðan slyddu, seinast hreint regn.“
Halldór Laxness, Salka Valka – Þú vínviður hreini, 16. kafli, síða 141
Hundslappadrífa
KVK
• mikil og stórflygsótt snjókoma í logni, skæðadrífa
Samheiti
hrognkelsadrífa, logndrífa, skæðadrífa, molla, molludrífa, molluhríð, síladrífa, snjókoma, snjómugga