Vilborg Yrsa Sigurðardóttir er orðin landsþekkt og gott betur fyrir löngu. Glæpasögur hennar eru seldar í yfir 100 löndum, en hún er ekki bara einn virtasti glæpasagnahöfundur landsins, byggingaverkfræðingur, móðir og amma, því hún er einnig ötul talskona kvenréttinda. Yrsa prýðir forsíðu DV sem kemur út í dag.
Í viðtalinu lýsir Yrsa meðal annars tíma sínum á Kárahnjúkum þar sem hún bjó í fjögur ár og starfaði sem tæknistjóri eftirlitsins sem verkrfræðiskrifstofan sem hún starfaði á sinnti. Hún var einnig framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem stofnað var fyrir rekstur eftirlitsins.
Hún segir að almennt hafi íslensku karlmennirnir á svæðinu ekki komið öðruvísi fram við hana af því að hún var kona, en það hafi erlendu mennirnir gert.
„Ég lenti í því til dæmis að það var eldri erlendur karlmaður sem var að biðja mig um að hjálpa sér að straujaskyrturnar sínar. Svona asnalegar uppákomur gerðust ítrekað til að byrja með. Á endanum var þetta orðið hálfgert grín, ég var farin að setja gulamiða á hurðina hjá mér sem á stóð allt það sem ég gerði ekki; ég strauja ekki fyrir þig, ég faxa ekki fyrir þig, ég vélrita ekki fyrir þig.“
Gulir miðar bættust jafnt og þétt við og létu vinnustaðagrínararnir ekki sitt eftir liggja og bættu við allskyns grínmiðum á hurðina. Yrsa brosir að minningunni í dag en segir þessar óskir um allrahanda aðstoð hafa komið sér spánskt fyrir sjónir á sínum tíma.
„Þegar ég var orðin nokkuð pirruð á þessu spurði ég einn þessara útlendinga hvernig honum dytti í hug að labba út allan ganginn, fram hjá fullt af fólki sem hafði minna að gera en ég og banka hjá mér til þess að spyrja mig að því hvort ég gæti ljósritað fyrir hann, eða hvað það nú var. Þá sagði greyið maðurinn: Þeir eru svo fúlir, meðan þú ert svo almennileg!“
Yrsa segir að þar standi hnífurinn einmitt í kúnni. „Við konur erum oft liðlegri að aðstoða og hjálpa. Ég held að þetta sé ekki það að það sé litið niður á mann af því að maður er kona, heldur að fólk búist frekar við því að því verði betur tekið ef það biður um aðstoð. Við erum sneggri til að þjónusta.“
Viðtalið í heild sinni má nálgast hér.
Í helgarblaði DV kennir ýmissa grasa. Þar er meðal annars að finna umfjöllun um spilafíkn og þá staðreynd að stór hluti spilakassanna er rekinn af af góðgerðar- og hjálparsamtökum. Spilakassar er sú tegund fjárhættuspila sem flestir spilafíklar ánetjast. Hvorki Rauði krossinn né Slysavarnafélagið Landsbjörg hyggjast hætta aðkomu sinni að Íslandsspilum sem reka fjölda
spilakassa. Formaður SÁÁ telur að rekstri spilakassa verði brátt sjálfhætt því öll spilun sé á leið á netið.
Mannshvörfum á Íslandi eru einnig gerð skil en 210 manns hafa horfið sportlaust. Lögreglan fær reglulega tilkynningar um horfna einstaklinga. Þegar lögreglan hefur eftirgrennslan að þessum einstaklingum koma þeir yfirleitt í leitirnar einum til tveimur sólarhringum eftir að tilkynning berst. Það er því miður ekki alltaf raunin. Þá geta mannshvörf einnig stafað af mannavöldum og hafa að minnsta kosti fimm óupplýst mannshvörf verið rannsökuð sem manndrápsmál á Íslandi.
Uppsagnarleiðin sem samþykkt var á Alþingi í vikunni en er sögð orka tvímælis. Ríkið hyggst verja 34 milljörðum til að viðhalda ráðningarsambandi fyrirtækja við starfsfólk sitt, en 27 milljörðum til að eyða því. Eyjan ræðir við sérfræðinga um málið.
Þetta er aðeins brot af því fjölbreytta efni sem er í helgarblaðinu. Fjölskylduhornið er á sínum stað, uppskriftir, lífsháskasagan, umfjöllun um skemmtilega viðkomustaði í Hveragerði svo fátt eitt sé nefnt.