fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Býst ekki við mikilli hörku í kosningabaráttunni

Trausti Salvar Kristjánsson
Föstudaginn 29. maí 2020 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forsetakosningar fara fram þann 27.júní þar sem valið stendur milli sitjandi forseta, Guðna Th. Jóhannessonar og Guðmundar Franklín Jónssonar. Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir kosningabaráttuna byrja hægt og erfitt sé að spá um stöðuna þar sem engar marktækar kannanir hafi enn litið dagsins ljós:

„Það er lítið að marka svona net- og innhringi kannanir sem gerðar hafa verið að undanförnu, jafnvel þó svo þátttakan telji tugþúsundir. Niðurstaðan er alltaf skökk og getur ekki talist þverskurður þjóðarinnar.“

Á ekki von á mikilli hörku

Nokkuð hefur borið á gagnrýni á Guðmund Franklín á samfélagsmiðlum vegna ummæla hans á Útvarpi Sögu árið 2018, þar sem viðskiptafortíð hans er einnig gerð tortryggileg. Þá hafa andstæðingar Guðna rifjað upp meint embættisafglöp hans sem og önnur mál sem einnig voru notuð gegn honum fyrir kosningarnar árið 2016:

„Jú jú, menn eru nú eitthvað byrjaðir að hafa sig í frammi á samfélagsmiðlum, en það er lítið hægt að taka mark á hvað menn segja á Facebook og hversu mörg like þeir fá þar. Eins og svo oft er eru það nú yfirleitt þeir illorðustu sem hafa sig mest í frammi á þeim vettvangi og því erfitt að lesa eitthvað meira í það á þessum stigum. En það verður fróðlegt að sjá fyrstu kannanir, Guðni hefur mælst vel allt kjörtímabilið og því fróðlegt að sjá hvort það hafi eitthvað breyst,“

segir Ólafur, en hann á þó ekki von á á því að kosningabaráttan verði hörð úr hófi fram:

„Það er erfitt að fullyrða eitthvað auðvitað, en ég á ekki sérstaklega von á því að þetta verði endilega harðara en áður. Kosningabaráttan þótti harðskeytt fyrir fjórum árum og enn illvígari árið 2012, þegar mikil harka var í gangi og Ólafur Ragnar þótti ansi beittur. Ég á nú ekki von á slíku með þessa tvo frambjóðendur.“

 

NOKKRIR FRÓÐLEIKSMOLAR UM FORSETAKJÖR

Ólafur reit um forsetakosningar fyrri ára á Facebook síðu sína í gær sem vakti mikla athygli, enda um afar fróðlega lesningu að ræða. Skrifin birtast hér að neðan með leyfi höfundar:

 

Nú er ljóst að Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti, og Guðmundur Franklín Jónsson, fyrrum leiðtogi Hægri grænna, verða í framboði í forsetakosningum 27. júní 2020.

Í aðdraganda kosninga er gott að rifja upp fróðleik um fyrri kosningar og velta fyrir sér ýmsum mynstrum sem hafa birst í tímans rás.

Sveinn Björnsson var fyrsti forseti lýðveldisins, kjörinn af Alþingi á Þingvöllum 1944. Ekki var sátt um kjörið meðal þingmanna, Sósíalistar og helstu forystumenn Sjálfstæðisflokks á Alþingi kusu ekki Svein, ma. af því að þeir voru ósáttir við að Sveinn hafði sem ríkisstjóri myndað „utanþingsstjórnina“ 1942.

Þjóðkjör forseta átti að fara fram 1945 og 1949, en þá bauð enginn sig fram gegn Sveini.

Eftir lát Sveins 1952 fór fram fyrsta þjóðkjör forseta. Ásgeir Ásgeirsson vann, fékk 48,3% gildra atkvæða, síra Bjarni Jónson fékk 45,5%, og Gísli Sveinsson 6,2%. Kjörsókn var 82%.

Síra Bjarni var frambjóðandi ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem höfðu góðan þingmeirihluta. Margir töldu því sigur síra Bjarna sjálfgefinn. En slagorð Ásgeirs „Fólkið velur forsetann!“ sló í gegn. Flestir Alþýðuflokksmenn hafa vafalítið kosið Ásgeir, en það gerðu líka margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins undir forystu Gunnars Thoroddsens borgarstjóra, sem var tengdasonur Ásgeirs. Og Ásgeir hefur líka fengið drjúgt fylgi frá öðrum flokkum. Síðan 1952 hafa stjórnmálaflokkarnir ekki boðið fram eigin forsetaefni.

Ekki var boðið fram gegn Ásgeiri 1956, 1960 eða 1964. En 1956 ætlaði hinn litríki Pétur Hoffmann, sem oft var kenndur við öskuhaugana á Gullströndinni, í framboð gegn Ásgeiri, en fékk ekki nógu marga meðmælendur. Hann skrifaði um „mennina með hlæjandi andlitin“ sem skrifuðu fölsk nöfn og heimilisföng á meðmælalista Péturs – væntanlega í von um að með þessu yrðu þeir ógildir! Pétur taldi þessa menn útsendara Ásgeirsmanna. Auk þessa veiktist Pétur í kosningabaráttunni. Um þetta allt skrifaði hann stórskemmtilegan bækling sem heitir „Liðið ofsótti mig, en SMÁDJÖFLAR unnu á mér“ 

1968 burstaði Kristján Eldjárn forsetakosningu gegn Gunnari Thoroddsen. Kristján fékk 65,6% gildra atkvæða, en Gunnar 34,4%. Kjörsókn var 92,5%.

Ekki var boðið fram gegn Kristjáni 1972 og 1978 og hann því sjálfkjörinn.

1980 voru fjórir í framboði. Vigdís Finnbogadóttir hlaut 33,8% gildra atkvæða, Guðlaugur Þorvaldsson 32,4%, Albert Guðmundsson 19,8% og Pétur J. Thorsteinsson 14,1%. Kjörsókn var 90,5%.

Hlutfall Vigdísar er það lægsta sem kjörinn forseti hefur hlotið í fyrsta kjöri sínu, enda er bara gerð krafa um einfaldan meirihluta á Íslandi – ekki hreinan meirihluta. Hefði t.d. írska röðunar-aðferðin („single transferable vote“) verið notuð hér hefði Guðlaugur líklega unnið, þó ekki séu til gögn um það. Sama niðurstaða hefði sennilega fengist ef tvær umferðir hefðu verið notaðar – og kosið milli Vigdísar og Guðlaugs í þeirri síðari. Eigi að síður vann Vigdís sér fljótt stuðning mikils meirihluta þjóðarinnar einsog flestir sitjandi forsetar.

1984 var Vigdís sjálfkjörin.

1988 var fyrst boðið fram gegn sitjandi forseta. Vigdís fékk 94,6% gildra atkvæða, en Sigrún Þorsteinsdóttir 5,4%. Kjörsóknin fór niður í 72,8%.

1992 var Vigdís aftur sjálfkjörin.

1996 voru fjórir í framboði. Ólafur Ragnar Grímsson fékk 41,4% gildra atkvæða, Pétur Kr. Hafstein 29,5%, Guðrún Agnarsdóttir 26,4% og Ástþór Magnússon 2,7%. Kjörsókn var 85,9%.

Um 85% Alþýðubandalagsmanna kusu Ólaf Ragnar og líka mikill meirihluti Framsóknarmanna og Alþýðuflokksmanna. Athyglisverðast var þó kannski að um 20% Sjálfstæðismanna kusu þennan nýhætta formann Alþýðunandalagsins sem forseta lýðveldisins.

2000 var Ólafur Ragnar sjálfkjörinn.

2004 fékk Ólafur Ragnar 85,6% gildra atkvæða, Baldur Ágústsson 12,5% og Ástþór Magnússon 1,9%. Kjörsóknin var lítil, 62,9%. Auk þess skiluðu um 22% kjósenda auðum eða ógildum atkvæðum. Ólafur Ragnar fékk þannig 67,5% af greiddum atkvæðum. Sennilega voru þetta eftirköst þess að Ólafur neitaði að skrifa undir fjölmiðlalög 2004 – og margir Sjálfstæðismenn hafi ekki viljað kjósa Ólaf án þess að líka við aðra kosti sem voru í boði.

2008 var Ólafur Ragnar sjálfkjörinn.

2012 lýsti Ólafur því yfir í áramótaávarpi að nú yrði hann ekki aftur í kjöri. Ýmsir hugsuðu sér því til hreyfings. En Ólafur skipti um skoðun og fór fram. Hann fékk 52,8% gildra atkvæða, Þóra Arnórsdóttir 33,2%, Ari Trausti Guðmundsson 8,6%, Herdís Þorgeirsdóttir 2,6%, Andrea Jóhanna Ólafsdóttir 1,8% og Hannes Bjarnason 1%. Kjörsókn var 69,3%,

Í þessum kosningum kusu langflestir Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn Ólaf, en fáir kjósendur Samfylkingar og Vinstri grænna studdu hann. Heldur betur breyting á kjósendaprófíl Ólafs Ragnars frá 1996! Og í fyrsta skipti gerðist það að Sjálfstæðismenn fengu forseta, sem þeir höfðu flestir kosið!

2016 hætti Ólafur, eftir að hafa daðrað við framboð fram á síðustu stund. Guðni Th. Jóhannesson fékk 39,1% atkvæða, Halla Tómasdóttir 27,9%, Andri Snær Magnason 14,3%, Davíð Oddsson 13,7%, Sturla Jónsson 3,5%, Elísabet Kristín Jökulsdóttir 0,7%, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,3%, Ástþór Magnússon 0,3% og Hildur Þórðardóttir 0,2%. Kjörsókn var 75,7%.

Sérstaka athygli vakti að einungis helmingur Sjálfstæðismanna kaus sinn gamla foringja, Davíð Oddsson. Hann fékk fá atkvæði frá kjósendum annarra flokka.

Síðustu árin hefur forsetaframbjóðendum fjölgað. Margir þeirra hafa fengið sáralítið fylgi. Lágmarkstala meðmælenda hefur verið óbreytt í stjórnarskránni frá 1944, eða 1500 manns. Hefði fjöldi meðmælenda haldist í hendur við fjölgun kjósenda væri meðmælendatalan núna um 5000 manns.

Atkvæði fjögurra frambjóðenda 2016 voru raunar færri en þeir 1500 meðmælendur sem þeir þurftu að safna til þess að komast á framboðslistann: 1280 atkvæði, 615 atkvæði, 477 atkvæði, 294 atkvæði.

Enn hafa engar marktækar skoðanakannanir birst um fylgi Guðna og Guðmundar. Birtar hafa verið „kannanir“ sem byggja á svokölluðum „sjálfvöldum úrtökum“. Slíkum úrtökum fylgja gjarnan kerfisbundnar skekkjur, þannig að þær endurspegla alls ekki skoðun heildarinnar. Engu breytir þó þúsundir taki þátt. Svona „kannanir“ eru bara samkvæmisleikur. Vísindalegar kannanir, t.d. byggðar á slembiúrtaki, gefa hins vegar býsna góða mynd af vilja kjósenda á þeim tíma sem þær eru gerðar.

Fróðlegt verður að fylgjast með þróun kosningabaráttunnar … 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Í gær

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Í gær

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka