Hilmar Sigvaldason vitavörður í Akranesvita fékk ansi óvænta heimsókn í vitann í gær. Brúðhjón frá Englandi voru gefin saman á toppi vitans og er þetta í fyrsta skipti sem slík athöfn fer þar fram.
Hilmar greinir frá þessu á facebooksíðu vitans en brúðhjónin sem um ræðir heita Oliver Konzeove og Sophie Bright. Var það Berglind Helgadóttir sýslumaðurinn á Akranesi sem gaf þau hjónakorn saman.
Í viðtali við Skagafréttir greinir Hilmar frá því að brúðguminn Oliver hafi á sínum séð myndband með tónlistarmönnunum Ólafi Arnalds og Nönnu Bryndísi úr Of Monsters And Men og stóð hann í þeirri trú að myndbandið hefði verið tekið upp í Akranesvitanum. Hið rétta er hins vegar að að það var tekið upp í Garðskagavita.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=PXkc2GLPl6I&w=684&h=480]
„Það breytti því ekki að þau voru gefin saman í smá roki hér á Skaganum í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem slík athöfn hefur farið fram á toppi Akranesvitans. Áður er búið að gefa hjón saman í fjörunni fyrir framan vitann, inni í vitanum og einnig fyrir framan Gamla vitann,“
segir Hilmar jafnframt en eftir athöfnina héldu hin nýgiftu hjón á Iceland Airwaves hátíðina þar sem þau vonuðust til að hitta Ólaf Arnalds.