Kostnaðurinn svipaður og undanfarin tvö ár
Áramótaskaup Sjónvarpsins kostaði 28 milljónir króna. Þetta segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV. Þá var áhorf á skaupið 77 prósent, en 90 prósent þess áhorfs var á línulega dagskrá, eða beina útsendingu.
Þetta kemur fram á vef RÚV.
Kostnaðurinn er sá sami og undanfarin tvö ár, en ódýrari en Skaupin tvö þar áður.
Skaupið mæltist ágætlega fyrir hjá landanum ef marka má niðurstöður könnunar sem DV framkvæmdi eftir sýningu þess á gamlárskvöld. 27 prósentum fannst það frábært, 28,5 prósentum gott, 14,2 prósentum sæmilegt, 12,7 prósentum lélegt en 17,6 prósentum mjög lélegt. Rúmlega 3.500 tóku þátt í könnuninni.