Davíð Smári Lamude, sem var oftast þekktur sem Dabbi Grensás, hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás af Héraðssaksóknara. Ítrekað var fjallað um Davíð Smára í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum en hann hefur ekki hlotið dóm í ríflega sex ár.
Athygli vekur að árásin sem Davíð er nú ákærður fyrir átti sér stað fyrir rúmum tveimur árum. Í ákæru Héraðssaksóknara er Davíð Smára gefið að sök að hafa ráðist á karlmann á fertugsaldri að kvöldi þann 1. nóvember árið 2015 við Kjarvalsstaði. Davíð Smári er sakaður um að hafa slegið manninn ítrekað með hækju í höfuð og vinstri hönd. Þetta varð til þess að maðurinn hlaut þriggja sentímetra skurð á höfði, heilahristing og brot á vinstra miðhandarbeini.
Líkt og fyrr segir hefur Davíð Smári ekki verið dæmdur síðan árið 2011 en þá hlaut hann sex mánaða dóm fyrir líkamsárás á skemmtistaðnum NASA. Þá kom símtal upp um hann því hann viðurkenndi sök í samtali sem hann átti við viðskiptafélaga, sem fyrir tilviljun var hleraður af lögreglu vegna gruns um aðild að fíkniefnamáli.
Davíð Smári er þó einna helst þekktur fyrir þrjár líkamsárásir á árunum 2006 til 2008 sem vöktu mikla athygli, svo mikla að rætt var við hann í Kastljósinu. Hann lamdi árið 2006 Sverri Þór Sverrisson, Sveppa, sem varð til þess Sveppi lék Kalla á þakinu með glóðarauga. Sveppi og Davíð Smári sættust þó og var það mál ekki kært til lögreglu.
Þá var Davíð Smári kenndur við strákaklíkuna Fazmo sem hélt úti vefsíðu þar sem menn stærðu sig af misþyrmingum. Í frétt Vísis frá árinu 2008 er vitnað í lýsingu á Davíð Smára á vefsíðunni sem nú er löngu horfin: „Davíð Smári eða Dabbi Grensás eins og flestir þekkja hann, var einn hættulegasti gangsterinn á götunni forðum daga. Hann rúlaði Breiðholtinu eins vel og hann rúlaði Grensásveginum. Hann var þekktur fyrir að lemja þá sem fyrir honum urðu og voru það margir.“
Síðar voru fluttar fréttir af því að Davíð Smári hefði veist að knattspyrnudómara, Vali Steingrímssyni, eftir leik í utandeildinni árið 2008 en Valur rifbeinbrotnaði. Það sama ár var Davíð Smári sagður hafa ráðist á þáverandi landsliðsmann í fótbolta, Hannes Þ. Sigurðsson, á Hverfisbarnum. Minna hefur farið fyrir Davíð Smára undanfarin ár fyrir utan aðkomu hans að deilum Gilberts Sigurðssonar og Hilmars Leifssonar á Café Milano í Skeifunni árið 2014. Davíð Smári var viðstaddur þar sem vinur Hilmars, samkvæmt fréttum frá þeim tíma.