VG segir að upptaka úr eftirlitsmyndavél sé aðalástæðan fyrir að gæsluvarðhaldskröfunni yfir Tom Hagen var hafnað af Hæstarétti. Segir miðillinn að á upptökunni sjáist þegar bíl Tom Hagen er ekið að vinnustað hans þann 31. október 2018 og sé þessi upptaka afgerandi í rannsókn málsins. Ef það er Tom Hagen sem er í bílnum er ljóst að hann var ekki heima þegar Anne-Elisabeth hvarf segir VG.
Í gær kom fram í norskum fjölmiðlum að Tom Hagen hefði hitt hinn þrítuga rafmyntasérfræðing að minnsta kosti tíu sinnum áður en Anne-Elisabeth hvarf. Fundir þeirra eru sagðir hafa snúist um fyrirtækjarekstur tengdum rafmyntum. Þeir eru sagðir hafa hist að minnsta kosti einu sinni á vinnustað Hagen.
Kunnátta unga mannsins á sviði rafmynta er athyglisverð að mati lögreglunnar því í bréfi, sem var skilið eftir á heimili Hagen-hjónanna, var sett fram lausnargjaldskrafa og átti að greiða lausnargjaldið með rafmynt. VG segir að maðurinn hafi skrifað um órekjanlegar rafmyntafærslur í tengslum við glæpastarfsemi á spjallvef. Meðal annars er hann sagður hafa komið inn á mannrán í skrifum sínum.