Nýlega kom út bókin, Stigið á strik, eftir Ingva Þór Kormáksson. Þetta er glæpasaga með ýmsum útúrdúrum „… eða skáldsaga með glæpsamlegu ívafi”, að sögn höfundar sem hefur áður sent frá sér glæpasöguna Níunda sporið og smásagnasafnið, Raddir úr fjarlægð.
Stigið á strik fjallar um mann á miðjum aldri sem býr í Reykjavík. Eitt og annað plagar hann. Hann veit kannski ekki enn hvað hann vill verða þegar hann verður stór, er í nokkurri tilvistarkreppu sem sé.
Eiginkonan er farin frá honum. Hann býr því einn með kettinum sínum og leiðist frekar lífið. En svo fer ýmislegt óvænt að gerast. Hann kemst á snoðir um ákveðið mál sem leiðir hann á vit vafasamra manna sem tengjast dularfullum dauðsföllum.
Síðast bók höfundar, Níunda sporið, fékk góðar viðtökur en hér gefur að líta sýnishorn úr ritdómum um hana:
„Spennandi saga sem heldur þér á tánum.” – STUNDIN
“… fjallað (er) um morð, ofbeldi og hefnd, en einnig íslenskan veruleika og flókin örlög … fyrirtaks hugmynd að glæpasögu.” – MORGUNBLAÐIÐ
“… spennandi saga um hefnd og með óvæntan endi.” – VIKAN
„Atburðir sem gerðust í barnæsku hafa ófyrirsjáanleg áhrif og nú kemur að skuldadögum. Mjög trúverðugar lýsingar á djammi og alls konar rugli, hressandi lesning … “ – KVENNABLAÐIÐ