fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Eyjan

Landsvirkjun boðar risa afslátt á raforku til stórnotenda

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 7. maí 2020 09:56

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Viðskiptavinir Landsvirkjunar á stórnotendamarkaði munu njóta sérstakra kjara í 6 mánuði, frá 1. maí til 31. október 2020. Öllum stórnotendum, sem greiða yfir kostnaðarverði Landsvirkjunar, býðst að lækka raforkuverð niður í kostnaðarverðið. Þannig sýnir Landsvirkjun stuðning sinn í verki á þessum óvenjulegu tímum,“

segir í pistli Stefaníu Guðrúnu Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar á heimasíðu fyrirtækisins. Er þetta gert til að koma til móts við stórnotendur í Covidkreppunni. Er gert ráð fyrir að tekjur Landsvirkjunar lækki um 1,5 milljarð króna á tímabilinu vegna lækkunarinnar.

Pistill Stefaníu er eftirfarandi:

Samband fyrirtækisins við viðskiptavini þess er hornsteinn starfsemi Landsvirkjunar. Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að raforka er stór hluti breytilegs framleiðslukostnaðar þeirra. Raforkuverð er þannig einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar, en þó ekki sá sem hefur úrslitaáhrif á fjárhagslega afkomu þeirra. Þar skiptir afurðaverðið, t.d. verð á áli og kísilmálmi, mestu máli. Afurðaverð hefur farið lækkandi undanfarin misseri, m.a. vegna offramleiðslu og birgðasöfnunar.

Raforkuverð á erlendum raforkumörkuðum hefur lækkað talsvert undanfarna mánuði vegna lækkandi verðs á jarðefnaeldsneyti og svo minnkandi eftirspurnar á þessu ári vegna COVID-19. Ljóst er að starfsumhverfi viðskiptavina Landsvirkjunar er afar krefjandi um þessar mundir vegna áhrifa faraldursins. Til þess að styrkja samkeppnishæfni viðskiptavina á alþjóðamörkuðum og markaðssókn hefur Landsvirkjun ákveðið að fara í almennar aðgerðir á tímum COVID-19-faraldursins.

Viðskiptavinir Landsvirkjunar á stórnotendamarkaði munu njóta sérstakra kjara í 6 mánuði, frá 1. maí til 31. október 2020. Öllum stórnotendum sem greiða yfir kostnaðarverði Landsvirkjunar mun bjóðast lækkun raforkuverðs niður í kostnaðarverð Landsvirkjunar, sem er á bilinu $28/MWst til $35/MWst eftir því til hvaða virkjana er horft. Verð til stórnotenda, sem eru núna að borga yfir kostnaðarverði, lækkar því tímabundið um allt að 25%.

Markmið aðgerðanna er að verja samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar og styðja við markaðsstarf þeirra við krefjandi ytri aðstæður. Horft er til þess að með aðgerðunum sé verið að hvetja núverandi viðskiptavini á stórnotendamarkaði til þess að styrkja eða auka við starfsemi sína á Íslandi, enda fara langtímahagsmunir Landsvirkjunar og viðskiptavina saman.

Gert er ráð fyrir að tekjur Landsvirkjunar muni lækka um allt að $10 milljónir vegna þessarar tímabundnu aðgerðar, eða um 1,5 milljarða króna.

Lítil áhrif á smásölumarkað

Fyrir utan stórnotendamarkað, þá þjónar Landsvirkjun einnig almennum markaði. Það gerist í gegnum heildsölumarkað þar sem smásölufyrirtæki í orkusölu kaupa raforku til skemmri tíma, þ.e. grunnorku og aðrar orkuvörur sem bjóða upp á breytilegt notkunarmynstur. Verðmyndun í smásölu byggist á þessum heildsölukaupum, auk kostnaðar smásölufyrirtækjanna af eigin vinnslu og álagningu.

Markaðshlutdeild Landsvirkjunar á almennum markaði er um 50%. Verðlagning Landsvirkjunar á raforku inn á almennan markað er ákveðin með reglubundnum hætti og er tekið mið af framboði og eftirspurn. Verð fyrir næstu fimm mánuði, maí-september 2020, hefur verið uppfært og er þar tekið tillit til þeirra aðstæðna sem nú eru á markaði. Með því móti er Landsvirkjun að koma til móts við smásölumarkaðinn, en hafa ber í huga að raforkan sjálf er ekki stór hluti raforkureiknings notenda á almennum markaði. Flutningur og dreifing eru þar fyrirferðarmeiri og munar því meira um það ef dreifiveitum er heimilað að lækka tímabundið flutnings- og dreifigjald til viðskiptavina sinna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Bandarísk stjórnmál: Biden vill koma böndum á Hæstarétt Bandaríkjanna

Bandarísk stjórnmál: Biden vill koma böndum á Hæstarétt Bandaríkjanna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur