fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

Viðskiptaævintýri Ásdísar Ránar

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 7. maí 2020 20:00

Ásdís Rán.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ísdrottningin Ásdís Rán Gunnarsdóttir hefur afrekað ótrúlega hluti í viðskiptaheiminum. Hún á langan feril að baki sem fyrirsæta, fyrirtækjaeigandi og frumkvöðull, svo fátt eitt sé nefnt.

Ásdís Rán var gift fótboltamanninum Garðari Gunnlaugssyni. Þau skildu árið 2012 eftir níu ára samband og eiga saman þrjú börn. Ásdís flutti fyrst til Búlgaríu árið 2008 þegar Garðar skrifaði undir samning við fótboltalið í Sofíu, höfuðborg Búlgaríu. Hún flutti til Íslands árið 2017 en fluttist aftur til Búlgaríu í febrúar síðastliðnum. Við ákváðum að líta yfir langan og annasaman viðskiptaferil Ásdísar.

Þjónustustörf

Ásdís Rán byrjaði að vinna á hárgreiðslustofu þegar hún var sextán ára og vann þar í nokkur ár. Hún vann einnig á börum og skemmtistöðum um alla miðborgina á þeim tíma.

Ásdís Rán.

Glamúrfyrirsæta

Það mætti nánast segja að Ásdís Rán hafi verið fyrirsæta allt sitt líf. Hún var sautján ára þegar hún sat fyrst fyrir og vakti fljótt athygli fyrir fegurð sína og þokka.

Ásdís Rán var Séð og Heyrt stúlkan árið 2000.

Séð og heyrt

Ásdís Rán var Séð og heyrt-stúlkan fyrir tuttugu árum. Hún vann keppnina Babes on the Beach árið áður og tók þátt í Miss Fitness.

„Það er mikið að gera hjá mér því ég er í fyrirtækjarekstrarnámi. Ég ætla að stofna fyrirtæki á næsta ári sem er enn þá leyndarmál. Fyrirtækið mun tengjast líkamsrækt en það mun koma betur í ljós í byrjun næsta árs,“ sagði Ásdís Rán við Séð og heyrt á sínum tíma.

Módel.is

Ásdís Rán var framkvæmdastjóri IceModels Management, model.is. Hún auglýsti fyrirtækið til sölu árið 2008 og sagði um það: „Sérsmíðað vefkerfi sem ég hannaði fyrir þarfir skrifstofunnar og heldur utan um allar upplýsingar um fyrirsæturnar og aðra sem eru á skrá hjá fyrirtækinu. Að minnsta kosti 500 manns.“

Fyrirtækið var einnig með umboð fyrir Miss Hawaiian Tropic, Queen of The World, Face of The Universe og margar aðrar fegurðarsamkeppnir

Playboy

Fyrirsætuferill Ásdísar blómstraði eftir að hún flutti til Búlgaríu. Hún hefur prýtt þar ófáar forsíður tímarita eins og Max og Playboy. Ásdís Rán var á forsíðu Playboy í Búlgaríu í júlí 2010.

Ásdís greindi stolt frá því að eitt vinsælasta fréttablað Grikklands hafi birt þessar myndir.

Eitt vinsælasta fréttablað Grikklands tók viðtal við hana og fékk að nota myndirnar úr Playboy-myndatökunni. Playboy í Þýskalandi birti einnig myndaþáttinn og Ásdís birti mynd af opnunni á bloggsíðu sinni.

Ásdís Rán og Garðar í veislu hjá Playboy.

Footballers’ Wives raunveruleikaþáttur

Árið 2009 kom hún fram í búlgarska raunveruleikaþættinum Footballers’ Wives. Hún sagði þættina vera eins konar „raunveruleika-heimildaþætti“ sem yrðu sýndir á sjónvarpsstöðinni Nova TV.

Ásdís Rán opnaði verslun í Búlgaríu.
Hún hannaði veski og undirföt.

IceQueen

Ásdís Rán stofnaði fyrirtækið IceQueen og seldi undirföt, kjóla, snyrtivörur og húðvörur. Hún opnaði verslun í Búlgaríu en undirfötin voru einnig til sölu í Hagkaupum. Árið 2019 fékk hún einkaleyfi á vörumerkinu IceQueen og er því sú eina sem má með réttu kalla sig það.

Svartar rósir til sölu.

Svartar rósir

Ásdís Rán heillaðist svo af svörtum Metanoarósum í Búlgaríu að hún byrjaði að flytja þær inn til Íslands árið 2018. Hún var einnig einkafulltrúi fyrir Metanoa de la Rose á Íslandi.

Ásdís Rán þegar hún var að læra þyrluflug.

Þyrluflugmaður

Ásdís Rán byrjaði að læra þyrluflug í Rúmeníu árið 2013. Fyrir fjórum árum fékk hún As350/h125 þyrluleyfi sitt í Svíþjóð og sagði upplifunina magnaða í færslu á Instagram. Árið 2017 var breski slúðurmiðillinn Daily Mail með ítarlega umfjöllun um glæsilegustu kvenkyns þyrluflugmennina og var Ísdrottningin þar ofarlega á lista.

Ásdís Rán gaf út bókina Valkyrja.

Gaf út bók

Ásdís Rán gaf út sjálfshjálparbókina Valkyrju fyrir jólin 2018. Bókin er lífsstílsleiðarvísir og vinnubók fyrir konur á öllum aldri.

Einkaþjálfari

Í gegnum árin hefur Ásdís Rán alltaf verið í fantaformi. Það ætti því ekki að koma á óvart að hún útskrifaðist sem einkaþjálfari í mars í fyrra. Hún hóf störf við einkaþjálfun hjá World Class og auglýsti þjónustu sína á Instagram.

Ásdís og Ruja. Ljósmynd/Inlife.bg.

Fjársvikamál

Ásdís Rán var flækt í eitt stærsta fjársvikamál síðari ára sem teygði sig til 175 landa. Samkvæmt bandarísku alríkislögreglunni, FBI, náði besta vinkona Ásdísar Ránar, búlgarska athafnakonan Ruja Ignatova, að svíkja út tæpa þúsund milljarða íslenskra króna á heimsvísu áður en hún hvarf sporlaust í október árið 2017. Ekkert hefur spurst til hennar síðan þá og hafa lögregluyfirvöld víðs vegar í heiminum reynt að hafa uppi á henni. Ásdís Rán er andlit fyrirtækisins sem talið er að standi að baki svikamyllunni.

Andlitsgrímurnar.

Grímur

Í síðustu viku greindi Ásdís Rán frá því að hún væri byrjuð að hanna og selja andlitsgrímur. Hún segir að sér hafi blöskrað að sjá allar ljótu grímurnar og ákveðið að fara að hanna  lúxusandlitsgrímur sjálf. Grímurnar kosta um tvö til fjögur þúsund krónur. Það er einnig hægt að kaupa þrjár grímur saman á 4.700 krónur. Ásdís Rán stofnaði Instagram-síðu fyrir grímurnar,
Boutiqe Masque.

Ásdís Rán hannaði og seldi undirföt fyrir IceQueen.

Stoltust af IceQueen

Við ræddum við Ásdísi um viðskiptaævintýrin og spurðum hana hvað stæði upp úr á ferlinum. Hún segir að besta viðskiptaævintýri hennar sé án efa IceQueen-vörumerkið.

„Ég byrjaði á því að hanna snyrtivörur undir IceQueen. Svo fór ég út í húðvörur, sundföt og kjóla. Ég hannaði verslun í Búlgaríu sem leit út eins og íshellir sem var handgerður af fremstu óperusviðslistamönnum Evrópu. Búðin var stórkostlega fallegt listaverk,“ segir Ásdís Rán.

„Þetta var ótrúlega skemmtilegt nokkurra ára tímabil og ég mokaði út vörum bæði erlendis og á Íslandi. En svo kom kreppa hér í Búlgaríu. Meðeigandi minn, Ruja Ignatova sem var í fréttunum í fyrra, fór á hausinn. Verslunarmiðstöðin sem verslunin var í fór einnig á hausinn ásamt því að markaðurinn hrundi. Til að bæta gráu ofan á svart var ég að skilja á sama tíma og einhvern veginn fór allt í vaskinn út af utanaðkomandi aðstæðum sem ég réð ekki við. En þetta var yndislegt ævintýri sem ég á eftir að geta sagt barnabörnunum frá í framtíðinni,“ segir Ásdís Rán með bros á vör.

„Svo er ég alltaf mjög stolt af þyrluflugmannsréttindunum og þeim áfanga. Varðandi fyrirsætuferilinn þá gæti ég ekki verið stoltari, ég gerði allt sem mig dreymdi um að gera og átti frábæran feril. Sat fyrir á öllum þeim forsíðum sem mig dreymdi um, kom fram í auglýsingaherferðum, sjónvarpsþáttum og mörgu öðru.“

Ásdís Rán.

Ekki góð í bókhaldi

Ásdís Rán segir að það sé vissulega margt sem hún hefði viljað sleppa.

„En þetta er hluti af skóla lífsins held ég. Ég er aðallega frumkvöðull og hönnuður. Mín sterka hlið er að búa til og skapa allt milli himins og jarðar. Ég er hins vegar frekar óskipulögð, áhyggjulaus og mundi ekki treysta mér í eitthvað sem snýst um bókhald. Ég er miklu betri í að eyða peningum,“ segir hún.

Snýst um að þora

Ásdís Rán sýnir gott fordæmi þegar hún fylgir draumum sínum og lætur þá rætast. Hún er mikið fyrir að hvetja unga frumkvöðla áfram.

„Ég vil hvetja fólk til að elta drauma sína og taka áhættur í lífinu. Framkvæma hugmyndir og læra af reynslunni. Það er ekkert nema jákvætt að mínu mati. Það er fullt af fólki sem velur það að lifa í ramma, gera það sama alla daga og vinna fyrir einhvern allt sitt líf. Það er eitthvað sem ég gæti aldrei gert en það er auðvitað líka gott og þokkalega „öruggar“ aðstæður. Það eru lög og reglur um að fólk verði að vera með  andlitsgrímur hér í Búlgaríu og verður væntanlega fram á sumar. Ég hef reyndar sent slatta af grímum til Íslands en mér finnst frekar skrítið að það séu ekki harðar reglur um andlitsgrímur þar eins og í öllum öðrum löndum, ekki bara fyrir manneskjuna með grímuna heldur fyrir alla í kring. Mér finnst þetta forgangsatriði á tímum eins og þessum,“ segir Ásdís Rán og bætir við:

„Þetta hefur verið mjög erfiður tími fyrir mig en sólin er að koma og þjóðfélagið að lifna við. Vonandi verður þetta búið fljótlega en þar til verð ég í dvala eins og svo margir aðrir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 19 klukkutímum
Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?