Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að þrátt fyrir að þess sé vænst að þeir hjálparpakkar, sem hafa verið kynntir til sögunnar, muni koma í veg fyrir langvarandi neikvæð áhrif faraldursins á efnahagslífið þá sé óhjákvæmilegt að 2020 verði erfitt ár og að ríkissjóður verði rekinn með miklum halla.
Nicolai Wammen, fjármálaráðherra, segir að staðan sé grafalvarleg fyrir danskt efnahagslíf sem og alþjóðlegt efnahagslíf. Hann segir það þó ljósa punkta að hjálparpakkarnir séu að virka og að byrjað sé að opna danskt samfélag á nýjan leik, rólega og af varkárni.
Nú sé aðaláherslan á að reyna að tryggja störf fólks en næsta skref verði að skoða hvernig er hægt að koma hjólum efnahagslífsins í gang á nýjan leik.
Ríkissjóður hefur ekki verið rekinn með svona miklum halla síðan í upphafi níunda áratugarins. Hallinn var ekki einu sinni svona mikil þegar fjármálakreppan skall á 2008.