,,Þetta var virkilega gaman en ég hef aldrei veitt þarna áður, veiddi þarna 68 og 65 sm urriða,“ sagði Pétur Pétursson í samtali við Veiðipressuna. Minnivallarlækur í Landssveit getur verið vandveiddur og það í fyrsta skipti þegar maður heimsækir hann.
,,Við fengum þrjá fiska og þetta var skemmtilegt. Þetta var bara eljusemi og ekkert annað en lækurinn hefur uppá margt að bjóða,“ sagði Pétur ennfremur en hann hefur veitt víða í gegnum tíðina og byrjaði sumarið eftirminnilega í læknum erfiða.
Undirritaður fékk sér labbtúr daginn eftir á nokkra staði í læknum og útiveran var góð. Fuglalíf meiriháttar og veðurfarið meiriháttar. Fiskurinn var eitthvað tregur, en útiveran var góð og góð æfing fyrir sumarið. Ég segi nú eins og maðurinn sagði. ,,Ég sá ekki sporð sama hvað ég leitaði.“
Svona er þetta bara, lækurinn hefur gefið 10 fiska það sem af er og nokkra vel væna og þeir eru allir í læknum ennþá.
Mynd. Pétur Pétursson með annan urriða sem hann veiddi í Minnivallalæk.