fbpx
Laugardagur 04.janúar 2025
Eyjan

Hjarðhegðun LMFÍ

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 30. apríl 2020 08:16

Jón Steinar Gunnlaugsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

LMFÍ hefur nú fengið verðskuldaða afgreiðslu á málsýfingum sínum gegn mér vegna samskipta minna í lokuðum póstum til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur í desember 2016.

Þau samskipti áttu rót að rekja til þess að dómstjórinn synjaði erindi sem ég hafði sent honum. Byggði hann synjun sína á því að ég hefði ekki sent með skriflegu erindinu skjöl hefðu þurft að fylgja. Þetta gerði hann, þó að ég hefði sent honum umfangsmikinn skjalalista viðkomandi máls og beðið hann að láta mig vita hvaða skjöl hann vildi fá send. Í stað þess að gera það afgreiddi hann erindið um hæl og synjaði því á þeirri forsendu að skjölin hefðu ekki fylgt.

Af þessu tilefni átti ég við hann nefnd orðaskipti, þar sem ég m.a. lét í ljósi þá ósk að hann svæfi vel á nóttunni. Ég sé nú eftir að hafa ekki óskað honum þess að sofa líka á daginn.

Vildi koma sér í mjúkinn

Maðurinn afhenti Reimari Péturssyni lögmanni útskrift af þessum samskiptum, en Reimar þessi var þá formaður LMFÍ. Reimar vildi sýnilega koma sér í mjúkinn hjá dómstjóranum og bar því upp tillögu í stjórn LMFÍ að félagið kærði mig í sínu eigin nafni fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Fyrir slíku háttalagi stjórnarinnar voru engin fordæmi í nokkurra áratuga sögu félagasins, enda ljóst af lögum um lögmenn að slík heimild var ekki til staðar.

Þegar erindi formannsins kom til meðferðar á vettvangi félagsins birtist þar sams konar hjarðhegðun og orðin er allt of algeng í hvers kyns fjölskipuðum nefndum og raunar dómum lögfræðinga. Sá áhrifamesti leggur eitthvað til og hinir samþykkja bara án þess að nota ætlaða lögfræðikunnáttu sína til að leggja sjálfstætt mat á viðfangsefnið. Þeir sem stóðu að ákvörðun í stjórninni um þetta frumhlaup voru auk Reimars lögmennirnir Berglind Svavarsdóttir og Árni Þór Þorbjörnsson. Einn var síðan forfallaður og annar vék sæti. Enginn greiddi atkvæði á móti.

Úrskurðarnefndin samþykkti samhljóða hinn 26. maí 2017 að veita mér áminningu. Nefndin sinnti ekki andmælum mínum um heimild hennar til að fjalla um og afgreiða málið, en fyrir þeim ábendingum hafði ég sömu röksemdir og nú hafa ráðið niðurstöðu dómstóla um að ógilda úrskurð nefndarinnar. Hér varð ofaná sams konar hjarðhegðun og ráðið hafði afstöðu stjórnarinnar, þegar hún ákvað að vísa málinu til nefndarinnar. Í nefndinni sátu lögmennirnir Kristinn Bjarnason, Einar Gautur Steingrímsson og Valborg Snævarr.

Fyrir utan að sinna ekki einföldum lögfræðilegum röksemdum mínum tóku þessar stofnanir Lögmannafélagsins að sér að taka undir málstað dómara sem hafði sýnt félagsmanni ósvífna rangsleitni, fremur en að koma honum til varnar gagnvart slíku.

Hún móðir mín sáluga

Hún móðir mín sáluga kenndi mér á sínum tíma að sitja ekki þegjandi undir rangsleitni og misnotkun valds. Þar að auki fannst ég mér bera eins konar uppeldishlutverk gagnvart stjórninni, þar sem ég hafði fyrir nokkrum árum verið gerður að heiðursfélaga í Lögmannafélaginu. Svo ég bar þessar gjörðir undir dómstóla.

Undanfarin ár hef ég, eins og margir vita, birt opinberlega hvassa rökstudda gagnrýni á dómstóla fyrir verk þeirra og þá einkum Hæstarétt. Ég áttaði mig því á að kannski myndi ég ekki hljóta hlutlausa meðferð fyrir mál mitt fyrir dómi. Svo fór samt, þrátt fyrir nokkra rangláta á leiðinni, að meiri hluti sérskipaðs Hæstaréttar komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að orðið skyldi við kröfu minni um að fella úrkurð LMFÍ úr gildi. Sannaðist þá að enn eigum við dómara sem þora að standa með lögfræðinni og sjálfum sér þegar á reynir.

Hefur orðið sér til skammar

Lögmannafélag Íslands hefur að mínum dómi orðið sér til skammar í þessu máli. Á vettvangi félagsins hlýtur að verða tekið til meðferðar hvernig á að bregðast við. Þá verður að tryggja að valdagírugir fyrirsvarsmenn þess geti ekki notað stöðu sína til að upphefja sjálfa sig á kostnað félagsmanna, sem hafa ekki annað til saka unnið en að gæta hagsmuna sjálfra sín og umbjóðenda sinna gagnvart dómendum sem veitast að þeim með rangsleitni.

Og svona í lokin hlýtur stjórn félagsins að upplýsa okkur félagsmenn hvað þetta hjarðævintýri er búið að kosta félagið. Í úrlausnum dómstólanna kemur fram að samtals þarf félagið að greiða mér 2,1 milljón í málskostnað. Það hefur svo sjálft verið með rándýran lögmann í þjónustu sinni við að reka málið gegnum þrjú dómstig. Við hljótum að fá að vita hvað það hefur kostað. Kannski stjórnin hyggist upplýsa það á aðalfundinum sem til stendur að halda innan fárra daga?

Jón Steinar Gunnlaugsson er fyrrverandi formaður LMFÍ

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Spyr hvort Framsókn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs

Spyr hvort Framsókn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs
Eyjan
Fyrir 1 viku

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Áslaug skipar skrifstofustjóra á síðasta degi ríkisstjórnarinnar – Bjarni vanhæfur

Áslaug skipar skrifstofustjóra á síðasta degi ríkisstjórnarinnar – Bjarni vanhæfur
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Orðið á götunni: Ríkisstjórnarskipti á morgun – Viðreisn fær fjóra ráðherra

Orðið á götunni: Ríkisstjórnarskipti á morgun – Viðreisn fær fjóra ráðherra