fbpx
Sunnudagur 27.apríl 2025

„Það er ekki leiðinlegt“ að lesa ljóðabók

Bókardómur

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 14. nóvember 2017 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrr á árinu kom út ljóðabókin Sprungur eftir ljóðskáldið Jón Örn Loðmfjörð. Undanfarið hefur Jón getið sér orð á samfélagsmiðlum og á djamminu sem ljóðagjörningalistamaður og er orðin það stór persóna að það væri harla ómögulegt að fjalla um ljóðabókina hans án þess að minnast á persónu Jóns, eða Lomma eins og hann kallast á veraldarvefnum. En á rafrænum stöðum eins og Facebook og Twitter leikur ljóðatröllið Lommi lausum hala með spámannlega sýn að vopni þar sem hann afhjúpar klisjukenndan veruleika nútímans og staðnaða orðræðu hans með ljóðrænum athugasemdum og endurteknum spurningum eins og: „Hver er staða ljóðsins?“ hvort sem umræðuefnið er pólitík, bókmenntir eða fréttaflutningur.

Að brjóta niður og afhjúpa

Á sama hátt og persónan Lommi afhjúpar klisjur samtímans má segja að ljóðin í Sprungum séu eins konar tilraun til þess að afhjúpa, afklæða og brjóta til mergjar samfélagið og allt sem í því felst. Þar notar hann einnig endurtekna orðaröð til þess að tengja saman ólík málefni og grafa undan hefðbundinni umræðu um þau. Þar má nefna ljóð þar sem allar setningar byrja á „það er ekki leiðinlegt að“ og í kjölfarið eru nefndar ýmsar iðjur til þess að klára staðhæfinguna. Stundum verða setningarnar fyndnar, öðrum stundum afhjúpandi, einstaka sinnum uggandi en alltaf svolítið sniðugar. Ljóðin í Sprungum eru nokkurs konar árás að hætti Grimmdarleikhússins sem var og hét um miðja 20. öld í París. Sú stefna miðaðist að því að brjóta niður kerfi samtímans líkt og tungumálið, í veikri von um að hægt væri að byggja þau upp á betri hátt síðar. Að þessu leyti má líkja ljóðunum í Sprungum við ofbeldi eða grimmd sem má deila um hvort sé samtíma okkar nauðsynleg til þess að brjóta niður kerfin sem við hugsum eftir.

Í mörgum ljóðanna birtast andstæður fegurðar og ljótleika, rómantíkur og hryllings, ljóðrænu og kláms o.fl. En þessar andstæður takast ekki beint á, heldur vinna þær saman. Það er eins og Jón neiti að viðurkenna hefðbundin andstæðupör og vilji frekar brjóta niður hugmyndirnar um andstæður. Þannig sýnir hann fram á að fegurðin geti búið í ljótleikanum á sama hátt og ljótleikinn geti búið í fegurðinni.

Sprungur er gefin út í 300 eintökum og er hver kápa einstök. Þar mætast tvö ferköntuð form og á milli þeirra er sprunga. Hver sprunga er einstök alveg eins og hver lestur er einstakur. Hin einstaka sprunga hverrar kápu gæti táknað skilin á milli andstæðupara sem Jón reynir að brjóta upp í bókinni. Kápan er enn fremur svört og hvít, sem er líklega þekktasta og viðurkenndasta andstæðupar fyrr og síðar, sem rennir óneitanlega stoðum undir þessar vangaveltur um þýðingu kápunnar.

Það eru engar reglur til

Sprungur er í sjálfu sér árás. Eins konar verk sem samið er til höfuðs ljóðrænunni, til þess að brjóta niður veggi á milli þess sem hefðin telur vera ljóðrænt og þess sem fellur utan við þá skilgreiningu. Bókin er afsprengi ákveðinnar kynslóðar ljóðskálda sem hafa tekið það að sér að pönkast í ljóðinu og reyna sitt besta við að finna ljóðrænu í því sem alla jafna er ekki talið ljóðrænt. Ef saga af fyrstu klámreynslunni er klippt niður í nægilega auðmeltanlega búta og raðað upp á svolítið skemmtilegan hátt þá er hægt að samþykkja að um sé að ræða ljóð. Þannig lítur ljóð jú út, og það eru engar reglur til sem segja hvað ljóð megi fjalla um og hvað ekki. Sterkustu ljóðin eru að mati gagnrýnanda þau þar sem Jón sýnir fram á mesta einlægni eins og í ljóðunum „rannsóknastofa“ og „verkfæri“ eða þegar hann nýtir uppbyggingu ljóða og setur í nýtt samhengi líkt og í „hverfisgatan hefur ekki gert okkur neitt“.

Það sem gagnrýnandi finnur helst Sprungum til foráttu er sú sama og honum hefur alltaf fundist vanta í Grimmdarleikhúsið. Það er gott og blessað að brjóta niður kerfin, rífa niður valdið, boða anarkisma, setja af stað óeirðir, berja pottlok og allt það. En þegar upp er staðið þá vantar alltaf einhvers konar úrlausn. Því þegar allt er í molum þá þarf sterka hugsjón til að byggja eitthvað upp á nýtt. Það er klisja sem er sönn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Björn Bjarnason hæðist að Svandísi – „Enginn getur tekið tapið frá flokksformanninum – sama hvað hlaðvarpssamtölin verða mörg“ 

Björn Bjarnason hæðist að Svandísi – „Enginn getur tekið tapið frá flokksformanninum – sama hvað hlaðvarpssamtölin verða mörg“ 
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Hófdrykkjufólk er í aukinni hættu á að fá krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma

Hófdrykkjufólk er í aukinni hættu á að fá krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Gefur drauminn upp á bátinn og skráði sig í herinn – Vill aðstoða Úkraínu gegn Rússlandi

Gefur drauminn upp á bátinn og skráði sig í herinn – Vill aðstoða Úkraínu gegn Rússlandi
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Orðið á götunni: Þriggja vasaklúta grátskýrsla Síldarvinnslunnar – Bubbi sendir tóninn – 28 byggðir hafa tapað lífsbjörginni

Orðið á götunni: Þriggja vasaklúta grátskýrsla Síldarvinnslunnar – Bubbi sendir tóninn – 28 byggðir hafa tapað lífsbjörginni
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Goðsögnin snýr aftur eftir fjögurra ára fjarveru

Goðsögnin snýr aftur eftir fjögurra ára fjarveru
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Sjósundið hefur hjálpað Sif að vinna sig út úr pálmatrésslysinu hræðilega á Tenerife

Sjósundið hefur hjálpað Sif að vinna sig út úr pálmatrésslysinu hræðilega á Tenerife
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Lýsir þungum áhyggjum sínum af Garðbæingum – „Sjokkerandi lélegt“

Lýsir þungum áhyggjum sínum af Garðbæingum – „Sjokkerandi lélegt“