Hún segir að í draumaríkisstjórninni sinni sé traust og duglegt fólk
Lilja Dögg Alfreðsdóttir varð fyrst áberandi í fjölmiðlum fyrir um ári, þegar hún tók við embætti utanríkisráðherra. Segja má að leið hennar inn í stjórnmálin hafi haldist í hendur við stærðargráðu þeirra verkefna sem störf hennar hafa fært henni, en áður en hún fór í pólitíkina var hún aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands. Hún starfaði einnig náið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á árunum 2010–2013 og segir þá reynslu hafa haft mikil áhrif á sig.
Í viðtali í Birtu, fylgiriti helgarblaðs DV, ræddi Lilja um uppvaxtarárin í Breiðholti og stjórnmálin sem hún hefur hellt sér út í. Hér að neðan birtist brot úr viðtalinu þar sem Lilja ræðir um draumaríkisstjórnina sína.
Spurð að því hvernig hennar draumaríkisstjórnin myndi líta út skellir hún fyrst upp úr. Varar svo við því að svarið muni hljóma frekar klisjukennt en engu að síður sé það hreinskilið.
„Mig dreymir meðal annars um að starfa með ríkisstjórn sem væri tilbúin fara á fullu í menntamálin og vera heiðarleg með það hvar við stöndum í þeim efnum. Krökkunum okkar vegnar ekki jafn vel í námi og þeim vegnaði áður og brottfall hefur aukist. Þetta kemur meðal annars fram í samanburðarkönnunum OECD. Við þurfum að skoða hvað sé að og hvernig sé hægt að bæta úr þessu enda höfum alla burði í að vera framúrskarandi á þessu sviði líkt og til dæmis Finnar. Svo er það ferðaþjónustan. Hún skapar mestar gjaldeyristekjur í þjóðarbúið og skipulag og umgjörð kringum hana þarf að vera traust og fyrirsjáanlegt. Þessi atvinnugrein hefur vaxið og vaxið en samt erum við ekki komin með heildstæða stefnu. Við þurfum líka að læra af öðrum ríkjum enda hefur fjölgun ferðamanna gert að verkum að nú erum við allt í einu orðin þjóð sem býr til meiri gjaldeyristekjur en hún eyðir. Þetta er alveg nýtt í sögu landsins.“
Hún segir að í draumaríkisstjórninni sinni sé traust og duglegt fólk, tilbúið að starfa saman næstu fjögur árin, burtséð frá því hvaða flokki hver og einn tilheyrir. Hún vill meina að til þess þurfi mikla stefnumótun, auðmýkt gagnvart viðfangsefnum og einarðan vilja til samvinnu. Að fólkið sé tilbúið að skoða málin út frá sem flestum sjónarmiðum og hafi einlæga trú á því að þátttaka þeirra í stjórnmálum snúist fyrst og fremst um að bæta íslenskt samfélag.
En hvernig nær stjórnmálafólk að treysta hvert öðru, og hvernig nær þjóðin svo að treysta stjórnmálamönnum upp á nýtt?
Lilja telur að með því að leggja áherslu á gagnsæ og vönduð vinnubrögð sé þetta hægt. „Svo þarf þjóðin að fá að fylgjast enn betur með opinberri stefnumótun. Þegar við unnum að losun haftanna reyndist það vel að setja allt samstundis á netið svo að fólk gæti fylgst með. Og ef fólk skildi ekki hugtökin þá lögðum við bara meiri vinnu í að gera þau skiljanlegri,“ segir hún og bendir á að samfélagsmiðlavæðingin hafi sérstaklega orðið til þess að kallað væri eftir auknu gagnsæi.
„Með netinu hefur ákveðin valdefling almennings átt sér stað. Fjölmiðlar, stjórnmál og fyrirtæki hafa þurft að aðlagast enda er þetta heilmikil breyting á því hvernig við eigum samskipti. Maður getur spurt sig að því hvort hér sé fimmta valdið komið? Á samfélagsmiðlum verða til alls konar fréttir, alveg óháðar fjölmiðlum. Hvort sem það sem telst fréttnæmt snúist um pólitík, viðskipti eða persónulega lífið. Það gleymist hins vegar stundum að við vitum ekki nákvæmlega hvað er verið að matreiða fyrir okkur. Við vitum ekki alveg hvernig fréttaveitan á Facebook virkar, hvað verður um öll þessi „læk“ okkar, eða hvað er gert við niðurstöður úr sakleysislegum persónuleikaprófum svo fátt eitt sé nefnt. Það er einfaldlega komið risaapparat utan um líf okkar sem við skiljum enn ekki til fulls og þangað til við gerum það er eflaust hyggilegast að hugsa út í afleiðingarnar, áður en stór orð eru látin flakka.“