Prentvörur ehf. opnar nýja vefverslun: www.skrifstofuvorur.is
Skrifstofuvörur.is er nýr vefur sem býður fyrirtækjum jafnt sem einstaklingum ýmsar skrifstofu- og skólavörur á góðu verði. Vefverslunin býður upp á þekktar vörur eins og Leitz, Bic, Pentel, 3M og fleiri en einnig er hægt að kaupa minna þekktar vörur sem eru jafnframt nokkuð ódýrari.
„Markmiðið með opnun vefverslunarinnar er að lækka verð á skrifstofu- og skólavörum hér á landi. Með því að nýta okkur samkeyrslu upplýsinga getum við leyft okkur að hámarka veltuhraða og minnka rekstrarkostnað,“ segir Jón Sigurðsson framkvæmdastjóri. Öll virðiskeðjan er svo að segja sjálfvirk, allt frá því að viðskiptavinurinn pantar þar til hann fær vörurnar í hendurnar. „Skrifstofu- og skólavörur eru hlutir sem okkur vantar iðulega aldrei strax í gær, þetta eru vörur sem við getum skipulagt innkaup á,“ segir Jón. „Þegar við seljendur fáum svigrúm náum við að skipuleggja innkaupin betur og getum þar af leiðandi boðið betra verð.“
Þegar þetta er skrifað þá kostar kassi (50 stk.) af bláa Bic-pennanum 8.450 kr. í A4 á meðan sami kassi kostar 5.513 kr. hjá Skrifstofuvörum eða er um 35% ódýrari. Kassi (12 stk.) af græna Pentel-kúlutússpennanum kostar hjá Pennanum 4.668 en 2.655 hjá Skrifstofuvörum eða er um 43% ódýrari.
„Við völdum þá leið að nýta vöruheiti og vörulýsingar sem eru á ensku beint frá framleiðendum og birta þær þannig á vefversluninni. Alþjóðlegar keðjur á Íslandi eins og Bauhaus og Costco eru með vöruheiti og lýsingar á þýsku og ensku, til að geta keppt við þessa aðila og erlendar vefverslanir getum við ekki eytt stórum fjárhæðum í þýðingar á vöruheitum og vörulýsingum. Við elskum íslensku en þetta er einfaldlega hluti af hnattvæðingunni,“ segir Jón.
„Í dag er hægt að velja um rúmlega 2.000 vörur á www. skriftofuvorur.is, við komum til með að bæta reglulega við okkur nýjum vörum og vöruflokkum þannig að það er mikilvægt fyrir viðskiptavini okkar að tengja sig inn á Facebook-síðuna okkar en þar munum birta ýmsan fróðleik og tilkynningar,“ segir Jón enn fremur.
Jón telur að flutningskostnaður hjá Skrifstofuvörum.is sé sanngjarn og að fyrirtækið vilji ekki fara þá leið að fela flutningskostnað í vöruverði: „Allur flutningskostnaður innanlands er uppi á borðinu hjá okkur, við hækkum ekki vöruverðið til að bjóða ókeypis sendingar. Þyngd allra vara sem við seljum er þekkt og reiknar vefverslunin sendingarkostnað í samræmi við verðlista Íslandspósts hverju sinni. Viðskiptavinir geta valið hvort þeir vilji vörurnar alla leið heim eða á næsta pósthús en við lítum á allt landið sem sama póstsvæði, þannig að það er sama verð á sendingum hvar sem viðskiptavinurinn býr á landinu.“
Öllum pöntunum fylgir svo veglegur nammiglaðningur óháð upphæð.
„Svartur föstudagur er á næsta leiti og þá eigum við eftir að gera eitthvað rosalega skemmtilegt,“ segir Jón að lokum.