Óttast að fólk verði úti – Með þrjá ketti í bílnum – Berst áfram
Tónlistarmaðurinn Gylfi Ægisson er nú heimilislaus og býr í tjaldvagni í Laugardalnum. Hann hefur nú gist þar tvær nætur og segir hann í samtali við DV að koddi hans hafi frosið í nótt. Í nótt var allt að tólf stiga frost en Gylfi segir að um þrjátíu manns búi nú í Laugardalnum. Hann segist óttast að einhver þeirra verði úti á næstu dögum vegna kulda.
„Ég er hérna með þrjá ketti, skógarketti og einn lítinn sem enginn vill eiga. Við erum sem sagt húsnæðislausir því það er ekkert að fá í Hveragerði. Ég fékk ekki að vera á tjaldstæðinu þar, og þetta er svolítið spaugilegt, því sá sem er með tjaldsvæðið er með kattaofnæmi. Heldurðu að það sé skrýtið? Það er eitt í þessu, það þarf að borga fyrir rafmagnið hérna og það er alltaf að slá út. Ég þori ekki að tengja tölvuna til að komast á netið. Það sló út fimm, sex sinnum í gærkvöldi og nótt. Þetta er búið að vera svona mjög lengi og ekkert gert í þessu,“ segir Gylfi.
„Það lá við að ég þurfti að rífa hann af hárinu, en ég setti bara á mig skinnhúfu og hélt áfram að sofa“
Gylfi var í viðtali í kvöldfréttum RÚV í gær en hann segir sjálfur að það hafi verið klippt á hann þegar hann gagnrýndi stjórnvöld sem mest. „Ég sagði til dæmis að ef ekkert yrði gert fyrir þetta fólk þá væri ég tilbúinn að fórna lífi mínu fyrir framan Alþingishúsið. Ég sagði það og meinti það. Bara fyrirfara mér fyrir framan Alþingishúsið í mótmælaskyni vegna þess hvernig er farið með aldrað fólk og öryrkja og minni máttar í gegnum tíðina. Þetta er búið að viðgangast svona í áratugi,“ segir Gylfi. Hann bætir við að barnaníðingar hafi fengið að vaða uppi á Íslandi svo áratugum skipti í skjóli stjórnvalda.
Hann segist ekki sáttur við flest alla stjórnmálamenn. „Það verður að laga þetta rafmagn hérna í Laugardalnum og svo þarf að finna skjól fyrir allt þetta fólk sem er hérna. Í gær var svo kalt að minnsti kötturinn minn fékk kvef og þó er ég með hita í bílnum. Skógarkettirnir þola meira. Ég er hérna í Moby-Dick bílnum mínum og í nótt, ég ligg hérna við glugga, þá var koddinn hálf frosinn. Það lá við að ég þurfti að rífa hann af hárinu, en ég setti bara á mig skinnhúfu og hélt áfram að sofa,“ segir Gylfi.
Gylfi segist hafa myndað bandalag við Kjarra tjaldbúa, Kjartan Theodórsson, sem býr á tjaldsvæðinu: „Við ætlum að berjast eins og grenjandi ljón við þetta kerfi því það verður einhver að taka af skarið, jafnvel ef maður fyrirfæri sér fyrir framan Alþingishúsið. Mér er fjandans sama því þetta er allt svo ógeðslegt, allt þetta kerfi. Það væri voðalega fínt að fá Dag B. Eggertsson hingað, og hann Bjarna Ben, í tjöld. Þeir mættu sofa hérna nokkrar nætur. Það er áskorun frá mér. Þeir mega hringja í mig í síma 773 7222, svo maður geti talað við þetta fólk. En það er allt í felum, eins og vinnukonan á Melum.“