Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Þetta er annað árið i röð sem hvalveiðar Hvals hf. falla niður. Haft er eftir Kristjáni Loftssyni, framkvæmdastjóra Hvals hf, að ekki sé nóg með að lágt verð fáist fyrir afurðirnar heldur séu endalausar kröfur um prufur og efnagreiningar á afurðum frá Íslandi en slíkar kröfur séu ekki gerðar til afurða japanskra útgerða.
Einnig er haft eftir honum að þótt markaðsaðstæður í Japan væru góðar þá sé nánast vonlaust að vinna við hvalskurð vegna kórónuveirufaraldursins því þar vinni fólk svo þétt saman.
Nú er unnið að rannsóknum á hvort hægt sé að nýta langreyðarkjöt í járnríkt fæðubótarefni fyrir fólk sem þjáist af blóðleysi og hvort hægt er að framleiða gelatín úr beinum og hvalspiki en gelatín er hægt að nota til lækninga og í matvælavinnslu.