Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins í dag.
„Eftirspurn eftir endurfjármögnun lána er heilmikil og hefur verið meðan á núverandi vaxtalækkunarskeiði hefur staðið. Hvað varðar húsnæðislán einstaklinga er rúmlega þriðjungur allra lánveitinga vegna endurfjármögnunar. Á undanförnum mánuðum hefur meðal annars verið mikil ásókn í óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum þegar kemur að endurfjármögnun lána. Nú er hægt að anna eftirspurn talsvert betur þar sem ferlið við endurfjármögnun og töku nýrra lána er orðið rafrænt.“
Er haft eftir Birni Berg Gunnarssyni deildarstjóra hjá Íslandsbanka.
Hjá Arion banka hefur eftirspurn aukist eftir verðtryggðum og óverðtryggðum lánum, þó heldur meira eftir óverðtryggðum. Hjá Landsbankanum fengust þær upplýsingar að margir vilji nýta sér lægri vexti til að lækka greiðslubyrði.
„Við tókum þá ákvörðun að loka fyrir umsóknir um endurfjármögnun í nokkrar vikur til að anna eftirspurninni eftir greiðsluerfiðleikaúrræðum sem ganga fyrir núna og þarf að afgreiða hratt.“
Er haft eftir Hönnu Þórunni Skúladóttur, skrifstofustjóra Birtu lífeyrissjóðs, en sjóðurinn hefur lokað fyrir umsóknir.