,, Við vorum búnir að vera að allan daginn og við reyndum allt. Vorum mikið að reyna að veiða uppstream með litlum flugum en það var ekkert að ganga. Áin var eins og beljandi fljót og mjög lituð,“ sagði Bjarki Tómasson sem byrjaði sumarið með stæl í Leirvogsá eftir rólega byrjun á deginum í ánni.
Bjarki segist hafa sett sig í samband við Elías Pétur í Villimönnum og spurði hann ráða.
,,Við breyttum um taktík og viti menn þessi stærðar fiskur tók í þriðja kasti. Fiskurinn tók í Hornhyl á Black Ghost á dauðareki. Fljótlega missti ég hann niður eftir því áin var svo straumhörð. Ég þurfti samt að taka hressilega á honum því ekki vildi ég missa hann neðar því þá væri baráttunni lokið. En sem betur fer kom hann á land eftir um 10 mínútna viðureign og deginum var bjargað,“ sagði Bjarki ennfremur.
Mynd: Bjarki Tómasson með flotta fiskinn úr Hornhyl í Leirvogsá, 80 sentimera fiskur.