Wortman ók um Nova Scotia í Kanada í gær og skaut fólk til bana. Lögreglan skýrði frá því í nótt að hann hafi myrt að minnsta kosti 16 manns en ekki er talið útilokað að fórnarlömb hans hafi verið fleiri en það.
Meðal fórnarlamba Wortman er lögreglukonan Heidi Stevenson. Hún hafði starfað í lögreglunni í 23 ár. Hún lætur eftir sig tvö börn.
Wortman ók meðal annars um á bíl sem leit út eins og lögreglubíll og klæddur sem lögreglumaður, að hluta að minnsta kosti, og skaut á fólk af handahófi. Lögreglan birti meðfylgjandi mynd af lögreglubílnum, sem Wortman ók, á Twitter og benti fólki sérstaklega á númerið sem er í rauða hringnum á myndinni. CBC segir að 12 klukkustundir hafi liðið frá því að Wortman hleypti fyrsta skotinu af í Portapique þar til hann var skotinn til bana á bensínstöð í Enfield sem er um 100 km frá Portapique.