En fjarskiptafyrirtækin gera það – Þú greiðir tugþúsundum meira en auglýst tilboðsverð – Ekki villandi að tilgreina ekki aukagjöld við auglýst verð
Munað getur tugþúsundum og jafnvel á annað hundrað þúsund krónum á ári á auglýstu verði á áskriftarpökkum fjarskiptafyrirtækja og því verði sem viðskiptavinir greiða í raun. Ýmis aukagjöld sem innheimt eru auk verðs áskriftarpakka geta auðveldlega orðið hærri en sem nemur verði grunnpakkanna sjálfra. Aðgangsgjöld, línugjöld, leiga á búnaði og greiðslur fyrir viðbótargagnamagn og mínútur, sem oft er naumt skammtað í pökkunum sjálfum, eru fljótar að telja og þjónusta sem viðskiptavinir töldu að væri innifalin getur þegar upp er staðið reynst þeim dýrkeypt.
DV ákvað að skoða tvo vinsæla áskriftarpakka hjá tveimur af stærstu fjarskiptafyrirtækjum landsins, 365 og Símanum. Bæði fyrirtækin bjóða upp á pakka sem innihalda net, heimasíma, sjónvarpsáskriftir og, í tilfelli 365, farsímaáskriftir líka. Fljótt á litið virðist viðskiptavinurinn vera að fá mikið fyrir tiltölulega hagstætt verð, en þegar betur er að gáð leynast þar margvísleg aukagjöld sem leggjast á hið hagstæða auglýsta verð. Þær upphæðir geta numið mörg þúsund krónum á mánuði, tugþúsundum á ári.
Sérstaklega er þetta áberandi hjá 365, sem býður meðal annars upp á Skemmtipakkann. Þar er boðið upp á sjónvarpsáskrift að Stöð 2 og systurrásum, net, heimasíma og allt að fjórar GSM-áskriftir á samtals 9.290 krónur á mánuði. Í auglýsingum og á heimasíðu 365 er enginn fyrirvari um að verðið sé „frá“ 9.290 krónum á mánuði, sem væri í raun réttara orðalag þegar smáa letrið er lesið og hin nánast óumflýjanlegu aukagjöld bætast við.
Tökum dæmi um hjón sem ákveða að skrá sig fyrir Skemmtipakkanum. Þau skrá farsíma sína tvo í pakkann og velja þá leið að fá 60 mínútur frítt í alla GSM og heimasíma á Íslandi og 10 GB af gagnamagni frítt með. Ef annað hvort þeirra talar lengur en 60 mínútur í símann á mánuði, sem getur gerst ansi fljótt á mörgum heimilum, kostar það 2.990 krónur. Ef bæði fara yfir 60 mínútna markið, gera það alls 5.980 krónur fyrir farsímanotkun á mánuði sem leggst ofan á verð Skemmtipakkans.
Nettenging fylgir pakkanum þar sem fyrstu 20 GB af netnotkun eru ókeypis. Á nútímaheimilum hrekkur slíkt gagnamagn skammt. Sérstaklega þar sem 365, líkt og mörg önnur fjarskiptafyrirtæki en ekki öll, er farið að innheimta fyrir innlenda netnotkun, sem og allt upp- og niðurhal. Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, sagði í umfjöllun DV um mælingu á gagnamagni í fyrra að aðeins 38 prósent viðskiptavina 365 noti minna en þessi 20 GB og fái því netið frítt. 90 prósent viðskiptavina noti 170 GB eða minna á mánuði. Þannig að þegar að þessi 20 GB, sem innifalin eru, klárast kostar það 1.990 krónur á mánuði að bæta við 150 GB gagnamagni til viðbótar sem leggjast, líkt og farsímanotkunin, ofan á verð Skemmtipakkans.
En ekki nóg með það. Fleiri þættir eru nauðsynlegir til að nýta sér þá þjónustu sem pakkanum fylgir. Greiða þarf mánaðarlegt aðgangsgjald (oft kallað línugjald) til Mílu sem nemur 2.580 krónum. Hægt er að leigja beini (e. router) hjá 365 á 590 krónur og þá kostar aðgangur að Sjónvarpi 365, 1.690 krónur á mánuði. Síðastnefndi þátturinn er nauðsynlegur til að eiga möguleika á áskrift að öllum íslenskum og erlendum stöðvum, aðgang að opnu íslensku sjónvarpsstöðvunum, tímaflakkinu og aðgang að SkjáBíó svo eitthvað sé nefnt. Er þá ekki tekið með gjald fyrir myndlykil, sem fólk getur verið með ýmist frá Símanum eða Vodafone.
Þegar allt þetta er talið saman, Skemmtipakkinn og áðurnefnd aukagjöld, kostar mánuðurinn hjónin í dæminu alls 19.540 krónur. Mismunurinn á því og auglýstu verði Skemmtipakkans er því 10.250 krónur á mánuði, sem þýðir að hjónin greiða 123.000 krónum meira á ári fyrir Skemmtipakkann en ætla mætti út frá auglýsta verðinu.
Jafnvel þó að þau haldi sig innan gagnamagns á netinu og fari ekki yfir innifalda farsímanotkun í mánuði þá kostar Skemmtipakkinn þau 14.150 krónur, með öllu öðru framangreindu. Ekki 9.290 eins og slegið er upp í auglýsingum.
Þess ber þó að geta að þegar tilboðið er skoðað nánar á heimasíðu 365 eru þessi aukagjöld tilgreind. Upplýsingar DV eru fengnar bæði þar og úr reikningi frá viðskiptavini 365 fyrir desembermánuð.
Síminn aftur á móti býður upp á Heimilispakkann, sem auglýstur er rækilega á 12 þúsund krónur á mánuði. Í honum fá viðskiptavinir aðgang að frelsi og tímaflakki SkjásEins, sjónvarpi Símans, erlendum stöðum, tónlistarveitunni Spotify Premium, frítt í sex mánuði, ókeypis heimasímanotkun innanlands og óháð kerfi svo eitthvað sé nefnt. Auk háhraðanettengingar þar sem innifalin eru 75 GB af gagnamagni.
Einn veigamesti munurinn á pökkum Símans og 365 er að farsímaáskrift er ekki innifalin í Heimilispakka Símans. Ef hjónin í dæmi okkar hér að framan vildu bæta inn tveimur sambærilegum farsímaáskriftum og eru í tilboði 365 gætu þau til dæmis valið áskriftarleiðina Sveigjanlegur – Bestur og fengið 120 mínútur á mánuði, 10 GB í gagnamagn á 3.990 krónur fyrir hvorn síma. Alls 7.980 krónur fyrir hjónin á mánuði sem leggjast myndu ofan á verð Heimilispakkans.
Á móti kemur hins vegar að þar fylgir netbeinir þannig að enginn aukakostnaður leggst á vegna hans. En það sem þó leggst við verð Heimilispakkans er línugjald, sem getur verið mismunandi milli þjónustuaðila, en er hjá Símanum 2.390 krónur á mánuði. Annað verð er síðan í Hvalfjarðarsveit, hjá Tengi á Akureyri og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
„Við töldum því réttast að láta gjaldið standa utan við pakkann svo við gætum auglýst þetta hagstæða verð á pakkanum og haft framsetninguna eins skýra og hægt er,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.
Ef línugjald Símans leggst á 12 þúsund króna pakkann kostar hann 14.390 krónur á mánuði í raun. Eða 28.680 krónum meira á ári, en en áætla mætti út frá auglýstu verði.
Í áðurnefndri umfjöllun DV um mælingar fjarskiptafyrirtækja á gagnamagni í fyrra kom fram í svari Símans að 75 prósent viðskiptavina Símans noti undir 75 GB á mánuði. Þannig liggur fyrir að heldur minni líkur eru á að hefðbundnir notendur klári innifalið gagnamagn í Heimilispakka Símans en til að mynda þau 20 GB sem innifalin eru hjá 365. En fari svo er hægt að bæta við auka 150 GB við Heimilispakkann fyrir 1.000 krónur á mánuði. Þá kostar pakkinn 15.390 krónur á mánuði.
Ef við gefum okkur að hjónin í dæmi okkar vilji halda öllum sínum fjarskiptaviðskiptum á einum og sama stað, og bæta við farsímaáskriftum sínum líka getur fjarskiptareikningur heimilisins því auðveldlega numið á bilinu 22.370 til 23.370 krónum á mánuði eftir því hvort þau velji aukið gagnamagn fyrir netið eður ei.
En hvernig komast fjarskiptafyrirtæki upp með að auglýsa verð á þjónustuleiðum, án þess að tilgreindir séu mikilvægir kostnaðarliðir sem geta hafa umtalsverð áhrif á endanlegt verð þjónustunnar?
Í lok maí 2012 kvað Neytendastofa upp úrskurð í máli Nova gegn samkeppnisaðilanum Símanum þar sem Nova hafði kvartað undan auglýsingu Símans á mánaðarverði ADSL þjónustuleiða fyrirtækisins. Vildu forsvarsmenn Nova meina að auglýsingarnar væru villandi, einmitt vegna þess að þar væri ekki greint frá mikilvægum kostnaðarliðum.
Í viðbrögðum Símans við kvörtun Nova segir meðal annars:
„Það væri ekki með skynsamlegum hætti hægt að halda því fram að þau fyrirtæki sem bjóði upp á ADSL þjónustu þurfi að tiltaka allt það sem viðskiptavinurinn þurfi að gera til þess að geta notað þjónustuna enda verði að ætla að neytendum sé almennt kunnugt um í hverju ADSL þjónusta felist.“
Niðurstaðan varð að Neytendastofa taldi Símann ekki hafa farið rangt með mánaðarverð ADSL þjónustuleiðanna þar sem neytendur gætu ýmist komist hjá því að greiða þá kostnaðarliði sem Nova tilgreindi í kvörtun sinni eða keypt búnað, eins og netbeini, hjá öðrum en Símanum. Taldi Neytendastofa Símann einnig hafa gert fullnægjandi ráðstafanir til að gera upplýsingar um kostnaðarliðina aðgengilega á heimasíðu Símans.
Af þessu má því ráða að fjarskiptafyrirtæki þurfa ekki að tilgreina heildarkostnað áskriftarleiða, þjónustuleiða eða tilboða varðandi aukabúnað sem telja má nauðsynlegan til að nýta sér áðurnefnda þjónustu. Einfaldlega vegna þess að hægt sé að nálgast eða eignast þann búnað með öðrum leiðum eða vegna þess að upplýst er um þann aukakostnað í smáa letri þjónustunnar á heimasíðum fyrirtækjanna.
Dæmi um áskrift hjóna:
Það sem þau fá í tilboðspakkanum:
6 sjónvarpsstöðvar:
Stöð 2, Stöð 3, Bíóstöðin, Krakkastöðin, Gullstöðin, Bravó.
Maraþon:
Hægt að nálgast nýjar og eldri þáttaraðir sem sýndar eru á Stöð 2.
Ljóshraðanet:
Allt að 100mb/s ljóshraða internet og 20 GB af gagnamagni.
Heimasími:
100 mínútur í íslenska heimasíma.
365 GSM þrep
60 mínútur í alla GSM og heimasíma á Íslandi og 10 GB af gagnamagni á 0 kr. fylgja.
Ef þú ferð umfram 60 mínútur og upp í allt að 365 mínútur greiðir þú 2.990 krónur.
Samtals Skemmtipakki og aukagjöld, hjónin halda sig innan uppgefins gagnamagns og mínútna: 14.150 krónur á mánuði.
Mismunur á auglýstu verði og raunverði: 4.860 kr. á mánuði, eða 58.320 kr. á ári.
Ef þau halda sig ekki innan uppgefins lágmarks bætist við:
+ Aukið gagnamagn 150 GB: 1.990 kr.
+ Tveir GSM-símar fara yfir 60 mín. í notkun: 5.980 kr.
Samtals Skemmtipakki og aukagjöld með öllu: 19.540 kr. á mánuði.
Mismunur á auglýstu verði og raunverði: 10.250 kr. á mánuði, eða 123.000 kr. á ári.
Það sem þú færð í tilboðspakkanum
Netið:
Allt að 100 Mb/s nettenging, 75 GB gagnamagn og netbeinir fylgir með.
SkjárEinn hjá Símanum
Aðgangur að Frelsi og Tímaflakki SkjásEins.
Sjónvarp Símans
Sjónvarpsþjónusta Símans.
Sjónvarp Símans appið
Hægt að horfa á sjónvarpið í snjalltækjum og leigja myndefni í SkjárBíó.
9 Erlendar stöðvar
Vinsælar erlendar stöðvar fylgja með, þar á meðal DR1, SVT1, NRK1, BBC Brit, Sky News, France 24, Boomerang, VH1 og National Geographic.
Spotify Premium
Aðgangur að einni stærstu tónlistarveitu heims fylgir með, frítt í 6 mánuði en 1.490 kr. á mánuði þar á eftir.
Endalaus heimasími
0 kr. í alla aðra heimasíma og farsíma innanlands og óháð kerfi.
SkjárKrakkar eða Skjárþættir
Talsett barnaefni eða margar af bestu þáttaröðum síðari ára. Valið hvort fylgi með pakkanum.
Samtals Heimilispakki og aukagjöld, haldi hjónin sig innan gagnamagns: 14.390 kr.
Mismunur á auglýstu verði og raunverði: 2.390 kr. á mánuði, eða 28.680 kr. á ári.
Ef þau halda sig ekki innan uppgefins gagnamagns bætist við:
+ Aukið gagnamagn 150GB: 1.000 kr. á mánuði.