fbpx
Laugardagur 04.janúar 2025
Eyjan

Tryggvagata tekur breytingum – Borgin vill forðast Hverfisgötuklúðrið – Kostnaðurinn 450 milljónir

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 17. apríl 2020 10:45

Mynd: ONNO ehf.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í sumar verður áfram unnið við að fegra og endurgera Tryggvagötuna, samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Borgarráð veitti í gær heimild til útboðs framkvæmda. Gert er ráð fyrir að tilboð í verkefnið verði opnuð í maí og að verktaki geti hafið störf í júní.  Áætlað er að framkvæmdirnar við endurgerð Tryggvagötu frá Pósthússtræti að Grófinni muni kosta 450 milljónir króna. Verkið er unnið í samstarfi við Veitur.

„Frá endurgerðu Bæjartorgi og Steinbryggju verður haldið áfram til vesturs að Naustum. Svæðið fyrir framan Tollhúsið er sólríkt og þar verður glæsilegt almenningsrými. Naustin verða einnig endurgerð frá Tryggvagötu að Geirsgötu. Að ári er svo áætlað að vinna síðasta áfangann frá Naustum að Grófinni,“

segir í tilkynningu.

Vilja forðast annað Hverfisgötuklúður

„Reykjavíkurborg og Veitur vinna sameiginlega eftir nýjum verkferlum framkvæmda í miðborginni. Gott aðgengi á framkvæmdatíma og gagnleg upplýsingamiðlun á meðan framkvæmdir standa yfir verður í fyrirrúmi. Hringt hefur verið í hagsmunaaðila, blaði dreift í hús og tölvupóstur verður sendur á fjarumhverfið. Þá hefur síða verið stofnuð og netfang. Ítarlegri upplýsingabæklingur er í vinnslu og verkefnið verður birt í framkvæmdasjá.“

segir í tilkynningu, en Reykjavíkurborg var harðlega gagnrýnd fyrir breytingarnar á Hverfisgötu í fyrra, þar sem verlsunareigendur voru margir ósáttir við skert aðgengi vegna framkvæmda og kröfðust bóta þar sem fyrirtæki þeirra voru nærri gjaldþroti þar sem ómögulegt var að nálgast sum fyrirtæki og verslanir.

Nýjar fráveitulagnir taka við af aldargömlum lögnum

Fyrri hluti verkefnisins verður áfangaskiptur í samstarfi Reykjavíkurborgar og Veitna. Byrjað verður á lagnavinnu en Veitur leggja nýjar fráveitulagnir og aðgreina í leiðinni regnvatnið frá skólpinu.
Lagnir vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu verða endurnýjaðar. Margar þessara lagna eru komnar til ára sinna, en skólplögnin og kaldavatnslögnin eru frá árinu 1925 og hafa því þjónað íbúum og fyrirtækjum í miðbænum í tæpa öld.

Framkvæmdin í stuttu máli:

  • Allt yfirborð gatna verður endurnýjað.
  • Vatns- og fráveitulagnir endurnýjaðar ásamt rafveitu.
  • Gönguleiðir hellulagðar.
  • Gatnamótum lyft upp í sömu hæð og gangstéttar og þau steinlögð.
  • Snjóbræðsla lögð undir gönguleiðir, torg og gatnamót.
  • Sólríkt torg við Tollhúsið.
  • Hjólabogar á svæðinu.
  • Sérstök stæði fyrir hreyfihamlaða og vörulosun.
  • Gatan verður einstefna til vesturs.

Nýtt sólríkt torg

Mósaíkverk Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu mun að loknum framkvæmdum fá að njóta sín betur en áður. Undir listaverkinu verður torg sem liggur einstaklega vel við sólu og hentar því vel sem dvalarsvæði fyrir vegfarendur. Á svæðinu verða einnig litlir þokuúðarar sem bjóða upp á leik og veita svæðinu ákveðna dulúð.

Mósaíkmyndin á suðurhlið Tollhússins var sett upp fyrir nærri hálfri öld, sumarið 1973. Arkitekt hússins, Gísli Halldórsson, sagði þegar verkið kom til landsins, að myndin lyfti upp svipnum á Tryggvagötunni. Það eru orð að sönnu og mun hún gera það enn betur að framkvæmdum loknum. Listaverkið verður lýst upp og fá mósaíksteinarnir að njóta sín betur en áður á þessum 142 m2 fleti.
Gerður var brautryðjandi í þrívíðri abstraktlist hér á landi og einnig frumkvöðull í glerlist. Listakonan lést tveimur árum eftir að Tollhúsverkið var klárað, aðeins 47 ára gömul. Minning hennar mun lifa áfram í listaverkinu, nú við fallegt, gróðursælt og sólríkt torg.

Aukið rými fyrir gangandi vegfarendur

Lífleg og fjölbreytileg almenningsrými og aðlaðandi borgarbragur eru leiðarljós við þessa framkvæmd, enda meginmarkmið Aðalskipulags Reykjavíkur. Nýlega samþykkt deiliskipulag fyrir Tryggvagötu dregur fram þessar áherslur aðalskipulagsins ásamt því að auka gæði umhverfisins til muna. Arkitektúr og list í götunni verða meira áberandi og gangandi vegfarendur fá aukið rými.

Nánari upplýsingar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Spyr hvort Framsókn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs

Spyr hvort Framsókn, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur muni sameinast undir forystu Sigmundar Davíðs
Eyjan
Fyrir 1 viku

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  

20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla  
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Áslaug skipar skrifstofustjóra á síðasta degi ríkisstjórnarinnar – Bjarni vanhæfur

Áslaug skipar skrifstofustjóra á síðasta degi ríkisstjórnarinnar – Bjarni vanhæfur
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Orðið á götunni: Ríkisstjórnarskipti á morgun – Viðreisn fær fjóra ráðherra

Orðið á götunni: Ríkisstjórnarskipti á morgun – Viðreisn fær fjóra ráðherra