Kórónuveirufaraldurinn hefur reynst þýskum dýragörðum dýr. Garðarnir eru lokaðir og því engar tekjur og það gerir reksturinn erfiðan. Í dýragarðinum í Neumünster er staðan svo slæm að það stefnir í að slátra verði sumum dýrum garðsins til að nota í fóður handa öðrum.
„Við erum búin að gera lista yfir hvaða dýrum við neyðumst til að slátra fyrst.“
Segir Verena Kaspar, forstjóri dýragarðsins, og leggur áherslu á að þetta sé síðasta úrræðið sem verður gripið til. Það sé þó betra að aflífa dýr en að láta þau svelta.