Margir muna eflaust eftir miklum áhyggjum víða um heim vegna svínainflúensu, SARS og MERS sjúkdómanna. Það tókst þó vel að glíma við þá og ná tökum á þeim og koma í veg fyrir heimsfaraldra. Það hefur ekki gengið eins vel með COVID-19 veiruna sem er nú heimsfaraldur.
En eins og áður sagði þá er til annar sjúkdómur sem sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO óttast enn meira en COVID-19. Það er Nipah-veiran sem var fyrst staðfest í Malasíu 1999. Fram til 2016 komu upp staðbundnir faraldrar í Malasíu, Singapore, á Filippseyjum, í Bangladess og á Indlandi. Þrátt fyrir að um staðbundna faraldra hafi verið að ræða hefur Nipah alla burði til að valda stórum faröldum segir norska landlæknisembættið.
Fram að þessu hafa aðeins um 500 manns smitast af veirunni sem berst meðal annars með ávaxtaleðurblökum. Svín éta skít þeirra og berst veiran síðan úr svínum í menn.
„Í Nepal gátum við rannsakað þegar Nipah-veiran barst úr skít og þvagi leðurblaka, sem héngu í trjám, í svín sem gengu fyrir neðan.“
Sagði bandaríski vísindamaðurinn Tracey Goldstein í samtali við Expressen.
Svín fá mild einkenni af völdum veirunnar en fólk verður mun veikara. Samkvæmt tölum frá WHO er dánartíðnin af völdum veirunnar á milli 40 og 75 prósent.
Nipah-veiran getur valdið banvænni heilahimnubólgu því hún ræðst á miðtaugakerfið. Margir missa meðvitund nokkrum dögum eftir smit.
WHO sagði 2018 að Nipah-veiran væri sjúkdómur sem þurfi að leggja áherslu á í rannsóknum. Ekkert bóluefni er til við veirunni né lækning en unnið er að þróun bóluefnis gegn henni á vegum CEPI. Á heimasíðu CEPI kemur fram Nipah-veiran hafi alla líffræðilega burði til að verða mikil ógn við heimsbyggðina.