Fulltrúar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skáluðu í freyðivíni í Ráðherrabústaðnum nú undir kvöld. Tilefnið var líklega að viðræðum flokkanna þriggja um að mynda ríkisstjórn sé lokið en aðeins nokkur mál á eftir að útkljá milli formanna flokkanna þriggja, Katrínar Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar áður en viðræðurnar klárast.
Katrín Jakobsdóttir formaður VG sagði í hádeginu í dag að það myndi skýrast í dag eða á morgun hvort flokkarnir næðu saman, Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í kvöldfréttum RÚV að aðeins þyrfti að klára nokkur atriði. Ef þeim tekst að ná saman mun það skýrast á næstu dögum hvort fyrsta ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verði að veruleika. RÚV náði myndum af fulltrúum flokkanna skála í gengum glugga Ráðherrabústaðarins en ekki er hægt að sjá almennilega hverjir eru að skála við hvern.