Anna Birna Helgadóttir býr, ásamt fjölskyldu sinni, í snoturri þriggja herbergja íbúð í Laugardalnum.
Í húsinu, sem er svokallað DAS-hús, eru fimm íbúðir en árið 1958 voru þær allar gefnar sem happdrættisvinningar.
Arkitekt var Jósep Reynis en húsið var byggt af Benedikt og Herði sf. Sú sem upprunalega vann þessa íbúð á happdrættismiðann sinn var átta ára stelpa enda engin aldurstakmörk fyrir þátttöku á þessum árum.
Íbúar: Anna Birna Helgadóttir, 37 ára, Skarphéðinn Kristjánsson, 33 ára, og Bjarki Hrafn. 2 ára.
Byggingarár: DAS hús, 1958.
Staðsetning: Laugardalur.
Stærð: 90 fermetrar.
„Við fjölskyldan fluttum hingað í júlí 2015 og gerðum allt upp nema eldhúsið. Við vildum láta innréttinguna halda sér að mestu svo við skiptum bara um höldur. Innréttingin er reyndar ekki alveg upprunaleg en þokkalega góð engu að síður,“ segir viðskiptafræðingurinn Anna Birna sem segist hafa erft áhugann á innanhússhönnun frá móður sinni, Stellu Benediktsdóttur, sem hún segir mikinn fagurkera.
„Líkt og mamma legg ég upp úr því að hafa færri en betri hluti í kringum mig. Þetta hafði ég að leiðarljósi þegar ég opnaði vefverslunina Dimm í apríl á þessu ári. Þar reyni ég að bjóða upp á úrval af vandaðri gjafa- og nytjavöru sem ég kaupi inn frá Norðurlöndunum, Póllandi og Tyrklandi,“ segir Anna Birna en verslunin er frumraun hennar í kaupmennsku á netinu.
Heimili Önnu er nútímalegt. Þar ber mest á svarthvítum tónum í bland við kopar og bleikt.
„Ég hef verið hrifin af bleika litnum í mörg ár. Löngu áður en bleika æðið reið yfir landið hafði ég málað bleikan vegg heima hjá mér. Bleikt, grátt, hvítt og svart eru líka litir sem passa svo fallega saman þannig að þetta hefur bara gerst smám saman hjá mér. Ég er reyndar dugleg að skipta út skrautmunum og þá reyni ég frekar að losa mig við en fylla á. Sel þá gripina á netinu eða gef í Góða hirðinn. Ég er mjög sátt við heimili mitt eins og það lítur út í dag en eflaust mun ég samt freistast til að breyta eitthvað aðeins til þar sem ég vinn við að velja fallega hluti fyrir heimilið.“
Anna Birna Helgadóttir Anna Birna flettir blaði við eldhúsborðið. Á borðinu má meðal annars sjá fallegan kertastjaka frá Ferm Living en koparljósið fína þekkja margir frá Tom Dixon. Borðplötuna keypti hún af Happie Furniture sem er íslenskt hönnunarfyrirtæki.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Björt stofa og opið flæði „Sófann fékk ég í Dorma, hann er fínn fyrir fólk sem er með tveggja ára barn á heimilinu. Borðið er Hey úr Epal en planið er að kaupa annað hliðarborð og hafa þarna með. Mottan fína kemur úr Dimm.is en þessar mottur hafa alveg slegið í gegn hjá mér. Lampann fékk ég í Habitat en parketið kemur úr Birgisson. Harðparket er eina vitið.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Veggföst kommóða „Malm-kommóðan fræga er veggföst hjá mér svo enginn fari sér að voða. Þarna glittir líka í aðra mottu í forstofunni hjá mér, en þessi er í öðrum litum.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Stílhreint og fallegt „Rúmteppið flutti ég inn sjálf og það sama gildir um myndirnar fyrir ofan rúmið. Hvort tveggja er hægt að fá á Dimm.is. Stiginn kemur úr Ilvu en lampana fékk ég fyrir mörgum árum á Akranesi.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Andstæður í formum „Hreindýrahausinn fékk ég í jólagjöf frá móður minni sem keypti hann í Módern. Kertastjakarnir heita POV og koma frá skandinavíska merkinu Menu.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Geómetrísk motta Mynstrið í mottunni er hægt að fá í allavega sjö litum og mottan sjálf er til í alls konar stærðum.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Málaði eldhúsbekkinn „Ég málaði reyndar borðplötuna með svarbrúnu vatnslakki frá Slippfélaginu. Hún var svona yrjótt og skelfilega ljót og nú er þetta mikið fallegra þó að viðhaldið sé vissulega meira. Ég þarf að mála þetta sirka einu sinni á ári svo að útlitið haldi sér.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Ugla sat í glerhúsi Glerkúpullinn er úr Ilvu en kertastjakinn er hannaður af Tom Dixon og var keyptur í Lumex á sínum tíma.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Spegill til að stækka rýmið „Þennan spegil fékk ég í IKEA og hann er í forstofunni þar sem hann endurkastar birtu frá stofugluggunum. Klukkan á veggnum kemur úr Módern og litla hjólaborðið er úr Söstrene Grene.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Falleg borðstofa Hér má sjá skemmtilega blöndu af gömlu og nýju í bland. Stólana með dökku sessunum fékk Anna í upprunalegu ástandi en Elínborg bólstrari sáluga gerði þá upp af sínu kunna listfengi.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Herbergi stubbsins „Hillurnar fékk ég í Rúmfatalagernum en púðana og rúmfötin sel ég á Dimm.is. Hvíta hillan er úr IKEA en ég pantaði höldurnar af superfront.se. Dótakörfuna fékk ég hjá Esja dekor og pönduna á veggnum pantaði ég af sænskri vefsíðu, minivlla.se.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari