Það hefur aðeins hlýnað, allavega hérna sunnanlands og það sást við Vífilsstaðavatni í gærkveldi þar sem veiðimenn röðuðu sér í vatninu með flugustangir af vopni og köstuðu grimmt fyrir fiskinn. Fiskurinn var kannski ekki í sérlegu tökustuði ennþá en það kemur þegar hlýnar eins og það á að gerast á allra næstu dögum.
,,Já, það voru nokkrir að veiða og eitthvað urðu menn varir við fiska aðeins,“ sagði Ingimundur Bergsson hjá Veiðikortinu, sem kíkti aðeins við vatnið um kvöldmatarleytið og þá voru allavega 8 veiðimenn að reyna. Enda hafði aðeins hlýnað.
Fátt er betra en smá veiði og útivera, fiskurinn fer að gefa sig í vötnunum. Bara að virða tveggja metra regluna og bjóða silungnum réttu fluguna. Það er heila málið þessa dagana.
Mynd. Veiðimenn við Vífilsstaðavatn í gærkveldi. Mynd Ingimundur