fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Eiginkona „steypubílstjórans“ á leið í meðferð – „Við þurfum bæði að byggja okkur upp“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 8. apríl 2020 14:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Agnes Lilja Hansen heitir ung kona sem átt hefur erfiða tíma undanfarið en vonast til að bjartara sé handan við hornið. Agnes veitti DV viðtal í síðasta mánuði og greindi frá því að maður sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um íkveikju á skemmtistaðnum Pablo Discobar og var þar áður tekinn á ofsahraða á stolnum steypubíl þar sem hann ók gegn umferð á Sæbraut, sé eiginmaður hennar.

Agnes Lilja og Hlynur eru gift og eiga ungt barn saman sem núna er í tímabundnu fóstri. Agnes er fædd árið 1994 en Hlynur árið 1990. Saga þeirra er í senn falleg ástarsaga og saga um sigra og ósigra í baráttunni gegn fíkninni.

Þegar Hlynur og Agnes kynntust hafði hann verið edrú í 18 mánuði. Þau áttu síðan yndislegan tveggja og hálfs árs edrú tíma saman. Hlynur féll og hvarf af heimilinu. Sá Agnes hann oft ekki vikum og jafnvel mánuðum saman. Nokkru síðar féll Agnes.

Í viðtali við DV í mars sagðist Agnes þrá líf þeirra saman aftur. „Ég vona að ég fái manninn minn aftur,“ sagði hún.

Straumhvörf hafa orðið í lífi beggja eftir að Hlynur var úrskurðaður í gæsluvarðhald í fangelsinu á Hólmsheiði. Að sögn Agnesar hefur Hlynur verið edrú frá handtöku og situr hann 12 spora fjarfundi á hverjum degi.

„Ég er búin að frétta af því að honum gengur virkilega vel og stendur sig eins og hetja í edrúmennskunni. Ég held að hann hafi tekið fráhvörfin út lyfjalaus,“ segir Agnes.

Agnes hefur barist lengi við að halda sér edrú en hún hefur nú fengið pláss á Vogi og á að leggjast inn á laugardaginn.

„Ég verð þar líklega í mánuð en stefni svo á eftirmeðferð, til dæmis í Krýsuvík,“ segir hún í samtali við DV. Hún er ákveðin í að komast á rétta braut aftur.

Agnes þurfti að fara í skimun fyrir kórónuveirunni fyrir innlögn og fór hún í sýnatöku í morgun. Niðurstöðu er að vænta innan tveggja daga en ekkert bendir til þess að Agnes sé smituð af veirunni.

Varðandi það hvort hún sjái núna hilla undir að litla fjölskyldan verði sameinuð á ný segir Agnes að það sé einfaldlega ekki tímabært ennþá að spá í það:

„Við þurfum bæði að byggja okkur upp og ná bata, það er það sem gengur fyrir núna.“

DV óskar Agnesi og Hlyni innilega góðs bata og gæfu í framtíðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum