Enginn efast um leikhæfileika Kevin Spacey sem hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir leik sinn. Hátterni hans hefur hins vegar ekki verið þannig að það kalli á lofsyrði en fjölmargir karlmenn hafa ásakað hann um að hafa sýnt þeim grófa kynferðislega áreitni. Eina umfjöllunin sem Spacey fær í fjölmiðlum er neikvæð og flestir eru á því að ferli hans sé lokið. Fall hans er hátt en hann getur engum um kennt nema sjálfum sér.
Sunday Times birti á dögunum frétt um að leikarinn hefði sest í hásæti drottningar í einkaheimsókn sinni í Buckingham-höll. Sú heimsókn var farin fyrir nokkrum árum þegar hann var listrænn stjórnandi Old Vic leikhússins í London. Andrés prins er sagður hafa farið með Spacey inn í herbergið þar sem hásæti drottningar er og leikarinn á að hafa sest í það og mynd verið tekin af honum. Talsmaður Buckingham-hallar neitar að tjá sig um málið og talsmaður Andrésar segir að prinsinn muni ekki eftir þessu atviki. Blátt bann liggur við því að aðrir en drottningin setjist í hásætið. Hennar hátign er því örugglega ekki skemmt við þessa frétt sem rataði á forsíðu Sunday Times.