Anne-Elisabeth hefur ekki fundist og þrátt fyrir að eiginmaður hennar hafi á síðasta ári greitt milljónir til meintra mannræningja hefur ekkert spurst til hennar. Lögreglan hefur um langa hríð unnið út frá þeirri kenningu að Anne-Elisabeth sé látin og að henni hafi verið ráðinn bani strax í upphafi. Lausnargjaldskrafan hafi verið sett fram til að villa um fyrir lögreglunni.
TV2 segir að nú telji lögreglan sig búa yfir nýjum upplýsingum í málinu. Haft er eftir Tommy Brøske, sem stýrir rannsókn málsins, að lögreglan hafi leitað að líki Anne-Elisabeth. Hann vildi ekki segja neitt um árangur þeirrar leitar en sagði að ef lögreglan telji tilefni til muni verða leitað á nýjan leik.
Aðspurður um hvað væri erfiðast í málinu sagði hann að eitt það erfiðasta væri hversu flókið málið sé. Af þeim sökum hafi verið nauðsynlegt að takast á við það á breiðum grundvelli frá upphafi og skipuleggja rannsóknina vel.
Hann sagði lögregluna nú vinna eftir rannsóknaráætlun sem var gerð í upphafi árs. Í henni felist að ljúka eigi ákveðnum atriðum rannsóknarinnar, atriðum sem lögreglan telur að geti haft þýðingu fyrir málið.
Hann sagði að lögreglunni hafi miðað áfram við rannsókn málsins og hafi nálgast þann eða þá sem stóðu að baki hvarfi Anne-Elisabeth.
„Við teljum okkur hafa skýrari mynd af hvað gerðist á Sloraveien 4 og hverjir voru á svæðinu þann 31.10.2018. Vegna rannsóknarhagsmuna get ég ekki farið nánar út í það.“
Um 30 lögreglumenn vinna að rannsókninni um þessar mundir. Rúmlega 400 manns hafa verið yfirheyrðir, sumir oftar en einu sinni.