„Ég kveð hann með miklum trega og votta fjölskyldu hans og vinum mína dýpstu samúð,“ segir tónlistarmaðurinn og fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason sem minnist Þorsteins Kragh með skemmtilegri sögu.
Sjá einnig: Margir minnast Þorsteins: „Denni var gull af manni en glímdi við drauga“
Eins og greint var frá í morgun lést Þorsteinn Kragh, umboðsmaður og tónleikahaldari, á heimili sínu þann 18. nóvember síðastliðinn, 56 ára að aldri. Útför hans var gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag.
Í færslu á Facebook minnist Frosti þess þegar hann kynntist Þorsteini.
„Í dag verður Þorsteinn Kragh borinn til grafar. Mér hefur alltaf verið sérstaklega hlýtt til Denna eins og hann var kallaður. Ég kynntist honum fyrst árið 1994. Þá var mín uppáhaldshljómsveit að halda lokatónleika í Tunglinu í Lækjargötu. Ég var bara sextán ára, en það var átján, ef ekki tuttugu ára aldurstakmark inn á Tunglið,“ segir Frosti sem bætir við að tónleikarnir hafi átt að fara fram á föstudegi. Sjálfur hafi hann verið mættur með fyrstu gestum, haldandi í húninn, þegar hleypa átti inn á tónleikana.
„En eitthvað hafði misfarist með vínveitingaleyfi fyrir staðinn þetta kvöld og neyddist tónleikahaldarinn til að fresta tónleikunum um einn sólarhring. Hann kom út og tilkynnti þetta á tröppunum fyrir framan staðinn. Þetta var Denni Kragh.“
Frosti rifjar svo upp að eitthvað hafi orðið til þess að þeir fóru að tala saman. Frosti fór að greina honum frá áhyggjum sínum af aldurstakmarkinu en staðreyndin væri sú að hann mætti ekki undir neinum kringumstæðum missa af tónleikunum.
„Hann sagði mér engar áhyggjur að hafa. Ég átti bara að mæta tímalega daginn eftir og hann mundi redda þessu. Og það stóð eins og stafur á bók. Þegar ég mætti daginn eftir hleypti hann mér inn áður en staðurinn opnaði og rétti mér reykelsi og kveikjara sem hann sagði mér svo að dreifa um staðinn. Svo tilkynnti hann öllu starfsfólki, gæslumönnum og dyravörðum að þessi litli strákur með síða hárið væri í vinnu hjá sér og hann ætti að fá að vera inni þetta kvöld.“
Frosti segir svo að lokum að lokatónleikar HAM í Tunglinu hafi verið og séu enn einhverjir bestu tónleikar sem hann hafi upplifað. „Þá upplifun hef ég alltaf þakkað Denna. Síðar meir áttum við alltaf í góðum samskiptum og kom þá alltaf betur og betur í ljós hverslags eðalmenni þar var á ferð. Alltaf vinalegur og almennilegheitin uppmáluð. Ég kveð hann með miklum trega og votta fjölskyldu hans og vinum mína dýpstu samúð.“