Ingibjörg Hólm Einarsdóttir tók eldhúsið sitt í gegn á dögunum. Hún deildi fyrir og eftir myndum í Facebook-hópinn Skreytum hús í gær. Myndirnar hafa heldur betur slegið í gegn og gaf hún DV góðfúslegt leyfi til að birta þær með lesendum.
Um er að ræða 32 ára gamalt eldhús. Eins og sjá má á myndunum fékk það allsherjar yfirhalningu.
„Húsið er byggt 1988 og var gamla innréttingin frá upphafi. Innréttingunni var púslað inn í eldhúsið á sínum tíma,“ segir Ingibjörg Hólm í samtali við DV.
„Ferlið núna byrjaði á því að klæða sperrur sem voru úr óhefluðu timbri með MDF og sett lýsing í þær. Opið inn í eldhúsið var breikkað um 30 cm sem breytti miklu varðandi umgengni og birtu. Öll innrétting og tæki eru frá IKEA og borðplata frá Fantófell.“