fbpx
Laugardagur 30.nóvember 2024
Fókus

Skiptir máli að vera öðruvísi

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 8. september 2017 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flest sem Jón Gnarr tekur sér fyrir hendur vekur athygli landsmanna. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti hann á dögunum og meðal annars var spjallað um pólitík og bókmenntir, en Jón verður með bók í jólabókaflóðinu.

Borgarstjórinn fyrrverandi auglýsti á dögunum eftir vinnu á Facebook-síðu sinni. Spurður hvort hann sé búinn að ákveða hvað hann taki sér næst fyrir hendur segist hann ekki vera á þeim stað. Ekkert sé fast í hendi.

„Ég er ekki með nein framtíðarplön, ekki nú frekar en venjulega,“ segir Jón Gnarr. „Eftir að ég hætti sem borgarstjóri hef ég verið viðloðandi Houston í Bandaríkjunum. Þar bauðst mér að kenna kúrs í skapandi skrifum við háskólann. Verkefnið sem ég setti nemendum mínum fyrir var að búa til hugmynd að sjónvarpsþáttum sem áttu að gerast í Houston og fjalla á einhvern hátt um loftslagsbreytingar. Við skrifuðum síðan saman fimm þátta sjónvarpsseríu sem heitir Landfall og gerist á óræðum tímum þegar stór fellibylur skellur á Houston. Svo gerðist einmitt það fyrir skömmu og það var nokkuð skrýtin tilfinning að fylgjast með því.

Við Jóga, konan mín, vorum að gæla við þá hugmynd að ílengjast í Houston. Ég hef verið með atvinnuleyfi í Bandaríkjunum en eftir vandlega umhugsun ákváðum við að við vildum vera hér. Hér líður okkur vel. Ísland er land mitt og heimur. Mér finnst gaman að vera Íslendingur og vera á Íslandi. Það er líka stór munur að vinna á íslensku og ensku. Nonni, yngsti sonur okkar, er tólf ára og á alla vini sína hér og þótt honum þætti gaman í Bandaríkjunum þá saknaði hann Íslands og vildi flytja heim. Svo hefur það alltaf verið mikilvægur hluti af tilveru minni að vera ekki utan garðs. Í útlöndum er ég alltaf utan garðs. Þar er ég skrýtni karlinn frá Íslandi.“

„Ég er dæmi um einstakling með athyglisbrest sem hefur náð árangri.“
Athyglisbresturinn „Ég er dæmi um einstakling með athyglisbrest sem hefur náð árangri.“

Mynd: Brynja

Eins og að vinna Eurovision

Þú átt öflugan aðdáendahóp hér á landi en samt þína gagnrýnendur sem telja að það sé hneisa að þú skulir hafa orðið borgarstjóri.

„Ég hef ekki velt mér mikið upp úr því. Þetta er eins og að vinna Eurovision. Það eru alltaf einhverjir sem eru ósáttir við að þú hafir unnið. Þeir komast aldrei yfir það og tauta: Ég gleymi aldrei Eurovision árið 1992, þetta var náttúrlega bara hneyksli!

Um daginn hitti ég gamla konu í Kringlunni. Hún sagði: „Ég er voða ánægð með þig og þú hefur alltaf staðið þig svo vel í öllu sem þú hefur tekið þér fyrir hendur, nema þegar þú varst borgarstjóri, mér fannst það alveg ömurlegt.“ „Já, frábært. Takk fyrir að deila því með mér,“ sagði ég. „Já, ég var mjög óánægð með það,“ endurtók hún. Ég svaraði: „Um að gera að stoppa alla sem þú þekkir ekki á förnum vegi ef þú ert óánægð með eitthvað sem þeir hafa gert. Ég þekki þig ekki en það er örugglega eitthvað í sambandi við þig sem ég gæti verið óánægður með.“

Við ættum að hætta að taka hluti svona óskaplega alvarlega. Það skiptir álíka miklu máli hver er borgarstjóri í Reykjavík og hver er forstjóri Toyota. Í rauninni skiptir það engu máli. Við getum sagt: Toyota er miklu betra eftir að Úlfar tók við – en það er samt ekki þannig. Toyota er bara Toyota og bílamarkaðurinn stjórnast af svo mörgu öðru en forstjóranum.

Fólk tekur íslensk stjórnmál alltof persónulega og of bókstaflega. Þetta minnir mig svolítið á það þegar fólk horfði á Dallas í uppnámi og spurði: Hvað er eiginlega að honum J.R. að koma svona fram við Sue Ellen!

Stjórnmál snúast fyrst og fremst um samskipti, hluti sem erum eða ættum að gera saman sem heild. Ég á erfitt með að draga fólk í pólitíska dilka. Ég hef aldrei náð því að fólk sé fífl og fávitar af því það er í Framsóknarflokknum. Mér finnst það ekki. Eða að allir sem eru í VG eða Sjálfstæðisflokknum séu á einhvern ákveðinn hátt. Það er bara ekki þannig.

Ég hef sjaldnast haft afgerandi afstöðu gagnvart stjórnmálaflokkum. Þar hefur verið fólk sem mér hefur líkað við og annað fólk sem mér hefur ekki líkað við. Stjórnmálaflokkar eru soldið eins og knattspyrnulið. Fyrir mörgum árum skráði ég mig í Sjálfstæðisflokkinn til að styðja Gísla Martein í prófkjöri. Ég vissi ekkert hvað prófkjör var. Gísli var bara strákur sem ég hafði kynnst á RÚV og kunnað vel við og mig langaði til að styðja hann. Í vinahópnum bauð Guðrún Ögmundsdóttir sig fram. Mér hefur alltaf fundist hún yndisleg og vildi allt gera til að styðja hana svo ég skráði mig þá í Samfylkinguna.

Í áramótaskaupi var ég eitt sinn fenginn til að leika stjórnmálamann í borginni sem átti að vera hluti af Tjarnarkvartettinum. Ég hafði ekki hugmynd um hvaða fyrirbæri þessi kvartett væri. Ég vissi hver Gísli Marteinn var, en ég vissi ekkert um borgarpólitík eða þennan kvartett.

Það er ríkjandi tilhneiging að taka hluti óþarflega alvarlega. Lífið er uppfullt af alvöru en svo er allur þessi tilbúni alvarleiki. Eins og þetta fréttablæti okkar Íslendinga. Það eru fréttir á klukkutíma fresti á landi þar sem aldrei gerist nokkur skapaður hlutur. Um leið verður til stórfrétt ef trjónukrabba rekur á fjörur í Berufirði. Það eru vissulega alvarlegir hlutir að gerast í heiminum eins og í Norður-Kóreu og Sýrlandi. En ansi margt sem gerist er ekki gríðarlega alvarlegt.

Það sem mér finnst skipta máli er að gera eitthvað óvenjulegt, koma skemmtilega á óvart og vera öðruvísi. Það mætti vera miklu meira af því. Mér finnst hlutirnir vera að fara æ meira í það að allt sé eins. Og þá er algjörlega lífsnauðsynlegt að finna upp á surprise-partíum.“

„Fólk tekur íslensk stjórnmál alltof persónulega og of bókstaflega.“
Stjórnmálin „Fólk tekur íslensk stjórnmál alltof persónulega og of bókstaflega.“

Mynd: Brynja

Tölum aðeins um athyglisbrestinn sem þú hefur skrifað um í bókum þínum. Heldurðu að það hafi ekki haft nokkur áhrif að maður sem var borgarstjóri tali um athyglisbrest sinn?

„Ég hef oft fundið að ég væri fyrirmynd hjá þeim sem einhverra hluta vegna eiga undir högg að sækja. Ég er dæmi um einstakling með athyglisbrest sem hefur náð árangri. Sumt sem ég geri í daglegu lífi er tví- eða þríverknaður og ég lifi með því. Það er gæfa mín í lífinu að eiga góða fjölskyldu og vini sem taka mér eins og ég er.

Þegar ég var krakki var fullorðna fólkið mikið að hvísla um mig. Ekki fyrir framan mig en ég skynjaði það á hegðun þess að eitthvað gríðarlega mikið væri að mér. Ég held að það hafi sín áhrif, ég hugsaði mikið um það hvort það væri eitthvað miklu meira að mér en bara það að ég væri rauðhærður.

Athyglisbrestur er gríðarlega gildishlaðið hugtak. Mér finnst ég alltaf sjá meira af því að farið sé að tala um athyglisbrest sem sjúkdóm. Mér finnst ég aldrei hafa verið veikur. Mér finnst athyglisbrestur vera ákveðin tegund af heilastarfsemi, ekkert betri eða verri en einhver önnur tegund. Núna er það þannig að fyrstu viðbrögð mín við að heyra orðið „athyglisbrestur“ er gleði. Mér finnst fólk með athyglisbrest yfirleitt skemmtilegt fólk sem býr til áhugaverða hluti.“

Lýðræðisspaði í útlöndum

Þegar þú lítur til baka hvernig minnist þú árana þegar þú varst borgarstjóri?

„Fyrir mér voru þetta tvo tímabil. Fyrstu tvö árin og seinni tvö árin. Það sem var mér persónulega erfitt var að fyrstu jólin dó mamma og það hafði djúpstæð áhrif á mig. Pabbi dó 2008. Dauði mömmu var eðlilega áfall fyrir mig en ég var ekki í aðstæðum til að syrgja hana. Það varð að huga að fjárhagsáætlun borgarinnar og fleiri hlutum sem vissulega voru mikilvægir og alvarlegir en skiptu mig samt ekki jafn miklu máli og það að mamma var ekki lengur til.

Ég var bara búinn að vera borgarstjóri í nokkra mánuði þegar þetta gerðist. Fyrstu tvö árin voru erfið en seinni hlutinn var miklu auðveldari. Þá var ég búinn að ná sterkari tökum á starfinu og kominn yfir þetta áfall.

Ég kom inn í stjórnmál sem ég hafði aldrei verið þátttakandi í og gerði mér litla grein fyrir stjórnmálamenningu á Íslandi og stjórnkerfinu. Það var ákveðið sjokk að koma allt í einu inn á vettvang þar sem ég var að vinna með og takast á við stjórnmálafólk og skipulagða stjórnmálaflokka.

Ég get alveg skilið að það fari fyrir brjóstið á fólki sem vinnur í stjórnmálum og hefur þau jafnvel að ævistarfi þegar allt í einu birtist þar jólasveinn eins og ég sem augljóslega er utanveltu. Það er skiljanlegt að einhverjum svíði það. Mér fannst spennandi tækifæri að prófa þetta og takast á við verkefni sem ég hafði aldrei tekist á við áður.

Á þessu tímabili lærði ég ótrúlega mikið varðandi rekstur. Ég fór í mikla og flókna fjármálavinnu sem ég hef svosem ekki tekist mikið á við áður. Mér fannst það mikil áskorun. Ástandið var gríðarlega snúið eftir hrunið, ekki síst varðandi Orkuveituna. Þarna voru fundir sem náðu tuttugu klukkutímum. Ég man eftir dögum þar sem fólk var með dýnu og svefnpoka í Ráðhúsinu. Það lá yfir skjölum og skýrslum og lagði sig í klukkutíma og hélt síðan áfram að vinna.“

„Það er svo mikið af sögum sem mig langar til að segja og nokkrar bækur sem mig langar til að skrifa.“
Rithöfundurinn „Það er svo mikið af sögum sem mig langar til að segja og nokkrar bækur sem mig langar til að skrifa.“

Mynd: Brynja

Hver er arfleifð þín sem borgarstjóri?

„Ég hef velt því fyrir mér. Áhersla á virk og gagnvirk samskipti var nokkuð sem ég notaði mjög mikið. Ég vildi nýta samskipti og reynslu, þekkingu og innsæi fólks í heildræna vinnu frekar en að taka einstrengingslegar ákvarðanir. Þetta er þjónandi forysta sem er aðferð sem ég hef alltaf notað þegar ég er að vinna, bæði í leikhúsi og sjónvarpi. Maður skapar liðsheild þar sem unnið er á jafningjagrundvelli. Þótt einstaka einstaklingar taki ábyrgðina og endanlegar ákvarðanir þá hafa allir rétt til að segja sína skoðun og fá að eiga sinn hlut í því sem gert er. Mér hefur alltaf fundist þessi aðferð virka langbest. Það er stór munur á að vinna með fólki eða láta það vinna fyrir sig. Mér finnst samvinna einfaldlega skemmtilegri.

Ég held að ég hafi líka sýnt það að venjulegt fólk megi skipta sér af stjórnmálum án þess að hafa fengið sérstaka í skólun í því.

Það er reyndar stór munur á afstöðunni til mín hér og í útlöndum. Það er merkilegt að í Austurríki, Þýskalandi og Tékklandi er ég álitinn einhver lýðræðisspaði og talinn hafa átt þátt í að skapa nýja vinstrið, en það eru reyndar pælingar sem ég næ ekki alveg. Nýlega var verið að bjóða mér til Búdapest og þar er fólk ekki að fara í launkofa með að því finnst Besti flokkurinn vera mitt afrek. Í Slóveníu er fólk að stofna flokk vegna áhrifa frá Besta flokknum.“

Styður Dag

Þú ákvaðst að hætta í stjórnmálum. Hættir á toppnum og vildir ekki vera borgarstjóri lengur. Þú varst um tíma orðaður við forsetaembættið. Hvarflaði að þér að bjóða þig fram til forseta?

„Áður en ég varð borgarstjóri var ég mikið út á við að hitta fólk, var veislustjóri og stóð á sviði. Á þessu borgarstjóratímabili var ég orðin innhverfari. Þegar ég var borgarstjóri þá íhugaði ég vandlega hvað mig langaði til að gera. Með því að hætta sem borgarstjóri sá ég tækifæri til að geta farið aftur í það að skapa mitt eigið. Ég hef unun af því. Þegar ég er að vinna að skapandi verkefnum þá líða tólf klukkutímar á tveimur tímum. Ég dett í tímaleysi og það er gaman. Þegar ég sat á borgarstjórnarfundi þá liðu fimm tímar eins og þeir væru tuttugu tímar. Það var þyngra og erfiðara.

Fyrst þegar ég heyrði hugmyndina um að ég yrði næsti forseti hugsaði ég: Æi, nei, ég get ekki verið að gera það. Svo fór ég að hugsa: Á ég að gera það? Er þetta eitthvað sem mér ber að gera. Við Jóga ræddum þetta og komumst að því að við vildum þetta ekki.“

Það styttist í næstu borgarstjórnarkosningar. Styður þú Dag B. Eggertsson?

„Að sjálfsögðu. Mér finnst Dagur alveg frábær og hann hefur staðið sig gríðarlega vel. Það var virkilega gaman að vinna með Degi og fá tækifæri til að kynnast honum. Það er bara þessi flokkur sem hann er í sem mér finnst vera í svo miklu rugli. Ég skil ekki þennan flokk. En ég styð Dag þótt ég sé ekki í Samfylkingunni.“

Óttarr Proppé, vinur þinn, er orðinn ráðherra og mjög er að honum sótt. Hvernig finnst þér hann hafa staðið sig?

„Flestir héldu að Óttarr yrði menntamálaráðherra. Ég hafði meira séð hann fyrir mér sem utanríkisráðherra því Óttarr er svo víðförull maður, vel lesinn og gáfaður. Það kom mér á óvart að hann skyldi fara í heilbrigðisráðuneytið. Það er örugglega einn erfiðasti málaflokkurinn í dag. Heilbrigðiskerfið er vanfjármagnað og svo er heilbrigðisþjónusta alltaf að verða hlutfallslega meira einkarekin og það er svo umdeild þróun. Kári Stefánsson er svo alltaf jafn reiður. Mér finnst Óttarr standa sig vel og halda sínu góða skapi og jafnvægi. Ekki mundi ég vilja hafa Kára upp á móti mér.“

Hittist þið Óttarr ennþá?

„Við hittumst ekki jafn oft og áður en samt endrum og sinnum. Yfirleitt þegar ég er búinn með uppkast að bók þá bið ég Óttar að lesa hana yfir. Nú var ég að klára bók og ætlaði að senda Óttari en hugsaði: Hann er náttúrlega heilbrigðisráðherra og hefur í nógu að snúast. Hann getur ekki verið að lesa einhverja bók eftir mig.

Núna á þessu ári er ég búinn að skrifa tvær bækur. Bók með Jógu, sem heitir Þúsund kossar. Svo skrifaði ég pólitíska bók fyrir þýska forleggjarann minn þar sem ég er að fjalla um þann pólitíska óróa sem ríkir víða í Evrópu og Bandaríkjunum og kynna aðferðir til að brjóta hann upp.“

Hvaða aðferðir eru það?

„Ég nota mína pólitísku sögu sem dæmi. Ég vil meina að stjórnmál séu óþarflega leiðinleg og það er að svo miklu leyti óþarfi. Þar er margt sem spilar inn í. En það er soldið með lýðræðið eins og skólakerfið, með því að auka gleði og skapandi hugsun þá verður árangurinn betri. Fólk er þannig gert að það vinnur betur þegar því líður vel og skapar meiri verðmæti.“

Telurðu hættu á að þjóðernissinnaðir flokkar sem ala á andúð til dæmis á múslimum nái fótfestu hér á landi?

„Já, ég held að þróunin verði svipuð hér og á hinum Norðurlöndunum. Ég sá svipaða hluti gerast þegar ég bjó í Svíþjóð fyrir 30 árum og ég sé vera að gerast hér nú. En þetta verður samt líklega bara jaðarhópur.“

Saga um sakleysi og áföll

Segðu mér frá nýju bókinni, Þúsund kossum.

„Þúsund kossar er saga um sakleysi og áföll. Árið 1980 fór Jóga til New York, þá átján ára gömul, til að vinna sem au pair og lenti þar í hræðilegu bílslysi. Þetta er sagan um það. Saga um áföll og upprisu. Við vinnslu hennar tók ég fjölda viðtala við Jógu sem ég skrifa niður og svo vinnum við Jóga textann saman.

Sem krakki gældi ég við þá hugmynd að verða rithöfundur. Ég hélt ég gæti ekki skrifað því ég er maður sem man aldrei hvort það á að vera stór stafur eða lítill í Íslendingar. En mér finnst bara gaman að segja sögur. Þetta byrjaði þannig að ég hitti Silju Aðalsteinsdóttur og hún sagði að ég þyrfti að skrifa bók. „Gerirðu það ekki bara? Má ég ekki bara panta hjá þér bók og þú skrifar um æsku þína?“ sagði hún. „Ég skal bara gera það,“ sagði ég. Alltaf þegar ég hitti hana á mannamótum þá minnti hún mig á þetta loforð. Svo varð þetta eitthvað sem ég varð að gera. Þá skrifaði ég Indíánann og svo komu Sjóræninginn og Útlaginn.“

Þú ert leikari, rithöfundur og fyrrverandi stjórnmálamaður. Hvort skilgreinirðu þig sem rithöfund eða leikara?

„Ég er bæði rithöfundur og leikari. Ég elska að draga mig í hlé og skrifa. En svo hef ég jafn gaman af að stökkva fram í sviðsljósið og leika og vinna með öðrum. Ég hef lítið unnið í leikhúsi og ég skrifa ekki dæmigerðar skáldsögur þannig að ég er oft hálfgerður utangarðsmaður á báðum sviðum.

Mér finnst óskaplega gaman að skrifa. Það er svo mikið af sögum sem mig langar til að segja og nokkrar bækur sem mig langar til að skrifa. Mig langar til að skapa mér tækifæri til að búa til ákveðna hluti. Það eru líka mörg hlutverk sem ég á eftir að leika. Ég á til dæmis alltaf eftir að gera sjónvarpsþættina Gamli maðurinn, sem ég byggi á sögum af pabba mínum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara
Fókus
Fyrir 3 dögum

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman