Jelena kýs orkusteina umfram raftæki og elskar að búa ein í fyrsta skipti
Bakgrunnur hennar er ólíkur því sem flestir Íslendingar eiga að venjast en Jelena Schally flutti til Íslands frá Serbíu ásamt fjölskyldu sinni árið 1996 og komu þau hingað sem flóttamenn.
Hún er þakklát fyrir margt sem fylgir því að búa hér á landi og þá aðallega frelsið, bæði í hefðbundinni merkingu en einnig þakkar hún fyrir menningarlegt frelsi til að skapa og tjá sig og fá að vera hún sjálf.
Jelena, sem er þrjátíu og tveggja ára, starfar sem verktaki við fjölbreytt hönnunarstörf en meðfram þeim afgreiðir hún í versluninni Hrím. Hún leigir litla íbúð við Ingólfsstræti og segist hvergi annars staðar vilja búa en í miðbænum.
„Ég er svo skapandi og það er svo skapandi orka hérna í miðbænum þannig að mér finnst mjög gott að vera hérna. Ég er búin að kynnast svo mörgu fólki, frábæru listafólki sem býr í grenndinni og sækir staðina í kring,“ segir Jelena sem flutti fyrst í 101 fyrir fimm árum og leigði framan af með öðru fólki en býr nú í fyrsta sinn ein og segist finna sig mjög vel í því.
„Þegar maður býr með öðru fólki þá hefur það auðvitað skoðanir á öllu saman. Nú fæ ég bara að ráða þessu sjálf. Þetta er fyrsta heimilið sem ég á bara fyrir mig og ræð hvernig allt á að vera,“ segir Jelena ánægð en íbúðin sem hún býr í er um 60 fermetrar, undir súð, í ævagömlu timburhúsi.
Jelena lagði stund á hönnunarnám í Tækniskólanum og hlaut þaðan diplóma frá deild innan skólans sem kallast „Academy of colour and style“.
Eftir að náminu lauk hefur hún sinnt fjölbreyttum verkefnum á sviði hönnunar. Meðal annars hefur hún hannað leikmyndir fyrir kvikmyndir, lúxusbústaði í Grindavík og sérstakt VIP-svæði fyrir Secret Solstice-hátíðina. Þá var hún hluti af búningateymi fyrir myndina „Ég man þig“ og þessa dagana hannar hún stúdíó fyrir sjónvarpsstöðina Hringbraut.
Jelena lagði sérstaka áherslu á að heimilið yrði eftir hennar höfði en hún vildi alls ekki að mikill tilkostnaður fylgdi því að gera fínt hjá sér. Þess vegna fer hún gjarna í Góða hirðinn og finnur húsgögn eða skrautmuni þar en svo hefur hún fengið mublur frá vinum og vandamönnum sem eru að breyta hjá sér.
„Ég var búin að ákveða hvernig lúkkið heima hjá mér ætti að vera en mig langaði ekki að eyða rosalega miklum peningum í þetta. Þess vegna hef ég verið dugleg að tína dót úr Góða hirðinum,“ segir Jelena og bætir við að hún hafi líka fengið sitt lítið af hverju frá fólki sem er að breyta til hjá sér.
„Til dæmis gaf nuddarinn minn mér mjög fallegt, gamalt borð sem mamma hans þurfti að losna við. Það er yfir hundrað ára gamalt, held ég. Með mikla sál og sögu. Ég er hrifin af svona gripum.“
Nýlega fékk Jelena geysilegan áhuga á pottaplöntum og kallaði sérstaklega eftir að fá þær í innflutningsgjöf þegar hún bauð í innflutningspartí á Facebook.
„Sko, þetta er eiginlega svona sálfræðilegt atriði. Þegar maður hættir með kærasta þá er svo gott að fá eitthvert annað líf til að sjá um í staðinn,“ segir hún og hlær dátt.
„Fyrst maður er með einhverja svona þörf til að sjá um og vera góður við einhvern þá er kannski bara gott að það séu bara plöntur. Þær eru svo einfaldar. Annaðhvort bara lifa þær hjá manni eða deyja. Það er ekkert flóknara þar inni á milli,“ segir hún að lokum.
Jelena á Instagram: jellschally