Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn, segir að andstæðingar flokksins reyni að útmála hann sem sérstakt skjól fyrir barnaníðinga. Segir hann andstæðinga flokksins þar með gera sig seka um ótrúlega lágkúru:
„Umræður hér á landi í aðdraganda þingkosninganna 28. október einkennast meðal annars af þessu í þeim lágkúrulega búningi að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins vilja beina gagnrýni á flokkinn í þann farveg að hann sé skjól fyrir barnaníðinga. Aldrei hefur verið lagst jafn lágt í kosningabaráttu hér og er þá langt til jafnað.“
Þetta kemur fram í pistli Björns á heimasíðu hans.
Hann segir skýrt dæmi um þennan málflutning vera pistil eftir Sif Sigmarsdóttur rithöfund í Fréttablaðinu sem margir stjórnarandstæðingar hafi hampað. Í pistlinum segir Sif:
„Ríkisstjórnin féll vegna þess að einn ganginn enn gerðu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sig seka um leyndarhyggju og svívirðilegan valdhroka – ef ekki beinlínis valdníðslu. Enn á ný sýnir flokkurinn að hann starfar hvorki í þágu umbjóðenda sinna, fólksins í landinu, né að hag þeirra. Í stað þess að sýna þolendum kynferðisofbeldis stuðning og veita þeim svör er allt gert til að leggja stein í götu þeirra. Og hvers vegna? Jú, samtryggingin er hornsteinn Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn starfar fyrst og fremst í þágu sín sjálfs.“
Björn segir slíkan málflutning vera öfgafullan og í honum felist að geðþótti sé tekinn fram yfir góða stjórnsýslu. Setur Björn þetta í samhengi við lýðræðishalla sem orðinn sé víðsvegar í heiminum, t.d. í Ungverjalandi, Venezuela og Tyrklandi, þar sem sjálfstæði stjórnsýslustofnana er ekki virt. Björn skrifar:
„Öfgafullur málflutningur af þessu tagi og tilraunir til að gera tortryggilegt að dómsmálaráðherra skyldi vísa fréttastofu ríkisútvarpsins á úrskurðarnefnd um upplýsingamál þegar hún bað um gögn varðandi uppreist æru er ekki annað en krafa um að hafa lögmætar stofnanir að engu og hundsa góða stjórnsýsluhætti að geðþótta. Sama viðhorf birtist hér í útlendingamálum þegar alþingismenn telja sér til framdráttar að flytja frumvarp til laga í því skyni að hundsa lögmætar ákvarðanir útlendingastofnunar.
Vonandi tekst andstæðingum Sjálfstæðisflokksins ekki að draga stjórnmálaumræður niður í svaðið þar sem þeim líður best þegar til stjórnmálaátaka kemur. Takist það reisa þeir vörðu á leiðinni frá frjálslyndum lýðræðislegum stjórnarháttum hér á landi.”