fbpx
Laugardagur 30.nóvember 2024
Fókus

„Mjaðmirnar og flautið eru mælikvarðinn á gott lag“

Páll Óskar flytur ævistarfið á tveimur tímum

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 15. september 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Páll Óskar Hjálmtýsson er fyrir löngu orðinn að þjóðareign og er hann einn afkastamesti og uppteknasti tónlistarmaður landsins. Hann stendur í ströngu þessa dagana við að undirbúa risatónleika sem fara fram í Laugardalshöll á morgun, laugardaginn 16. september. Tónleikar sem eru ævistarf Páls Óskars á tveimur klukkutímum.

„Núna langar mig að brjóta smá blað,“ segir Páll Óskar aðspurður um tónleikana og af hverju hann beið ekki með þá þar til hann verður fimmtugur, eftir þrjú ár.

„Ef þakið fer af húsinu á laugardaginn þá er kannski kominn grundvöllur til að gera þetta aftur þegar ég verð fimmtugur,“ segir Páll Óskar hress í bragði. „Þá verður maður reynslunni ríkari, við erum svolítið að finna upp hjólið núna. Þetta er mikil áskorun á alla sem koma að þessu. Núna eru hátt í hundrað manns að vinna nótt og dag að koma þessu saman þannig að fimmtugsafmælið verður mun auðveldara í framkvæmd.

Mynd: Mummi Lú

Ég hef aldrei áður blandað tónlist, hljómsveit, dönsurum, búningum, grafík, myndböndum, „ljósasjói“, tæknibrellum og keyrt áfram á sérsmíðuðu sviði. Þetta hefur mig langað til að gera lengi og dreymt um alla ævi og núna er tíminn kominn, einkum vegna þess að nú er þekkingin fyrir hendi á Íslandi. Við eigum tækjabúnaðinn og eigum starfsfólk sem hefur unnið að svona risatónleikum hjá poppstjörnum eins og til dæmis Justin Bieber og Justin Timberlake. Þar var fræinu sáð og starfsfólk Sena Live fylgdist grannt með allri þeirri framkvæmd og fór að hugsa hvort það gæti sett svona tónleika á laggirnar með íslenskum listamanni og íslenskt starfsfólk í öllum hornum.“

Tækninýjung sem aldrei hefur verið reynd á Íslandi verður hluti af tónleikunum. Allir tónleikagestir fá armband sem er beintengt við borð ljósamannsins sem stýrir armböndunum alfarið. Áhorfendur verða eins og punktar í litasjónvarpi og ljósamaðurinn ákveður hvaða litur verður í stúku og hvaða litur verður á gólfi. „Þetta verður í höndum ljósamannsins og ég hlakka gríðarlega til að sjá þetta,“ segir Páll Óskar.

Mynd: Mummi Lú

Búningarennsli er á fimmtudag og generalprufa á föstudag með öllu, eldi, sprengingum, tæknibrellum. Undanfarna daga hafa dansar verið hreinsaðir upp og hljómsveitin æft sig. „Við urðum að fara þá leið með sum lög að taka þau upp og endurútsetja; forrita hljóðið þannig að hljómsveitin gæti leikið þau.“

Síðastliðinn sunnudag hittust dansarar og hljómsveit í fyrsta sinn og það var merkileg stund að sögn Páls Óskars. „Þá fann hvor hópur orkuna frá hinum,“ segir Páll Óskar, en hann er sá eini sem er með heildarútkomu tónleikanna í höfðinu. „Við erum búin að dansa fimm tíma á dag eftir vinnu, þannig að maður er aðeins lúinn þegar maður kemur heim,“ segir Páll Óskar, sem segist samt hafa náð að sofa 7–8 tíma á dag.

„Nú er staðan sú að ég hef engar áhyggjur af „showinu“, núna gengur þetta bara sinn vanagang, allir eru að vinna á fullu í sínu og hugsa um að skila sínu verki. Ég þarf eingöngu að hugsa um að vera sætur og að röddin sé í lagi, mæta og hafa bara gaman af og gefa.“

„Við erum búin að dansa fimm tíma á dag eftir vinnu, þannig að maður er aðeins lúinn þegar maður kemur heim.“
Stífar dansæfingar „Við erum búin að dansa fimm tíma á dag eftir vinnu, þannig að maður er aðeins lúinn þegar maður kemur heim.“

Mynd: Mummi Lú

Byrjaði sem barn að koma fram, en varð aldrei barnastjarna

Páll Óskar byrjaði ungur að koma fram og syngja. „Ég man að ég var 10 ára þegar ég fékk borguð laun í fyrsta sinn fyrir að koma fram og syngja. Þetta var auglýsing fyrir leikfangaverslunina Fido, sem var í Iðnaðarmannahúsinu við Hallveigarstíg, sungin Playmobil auglýsing. Þó að barnaröddin væri notuð mikið í auglýsingar og sjónvarpsþætti eins og Stundina okkar, þá varð ég aldrei barnastjarna, ég var aldrei markaðssettur þannig.

Páll Óskar orðinn dj þriggja ára.
Snemma beygist krókurinn Páll Óskar orðinn dj þriggja ára.

Í flestum leikritum í barnaskóla lék ég öll kvenhlutverkin og það var enginn sem kippti sér upp við það. Þetta var eðlilegasta mál í heimi fyrir mig og alla aðra.“

Tólf ára kórdrengur í Skálholtskirkju.
Kórdrengur Tólf ára kórdrengur í Skálholtskirkju.

Færri gigg í ár en oft áður vegna tónleikanna

Í ár hefur Páll Óskar komið fram á færri giggum en oft áður og ástæðan er einföld. „Ég þurfti að velja og hafna og fyrir mig var engin spurning að taka þessa risatónleika og taka þá alla leið, þannig að þó að ég hafi sleppt einhverjum böllum í ár þá eru tónleikarnir eins og taka 20 slík í einu. Ég var líka að taka upp plötu í stúdíói – kláraði hana í sumar.

Viðhorf mitt er líka skýrt: plata er plata, tónleikar eru tónleikar og ball er ball og á morgun er ég með tónleika og tónleikar með mér eru bara mjög íburðarmiklir og krefjast gríðarlegrar undirbúningsvinnu. Ég legg mikið á sjálfan mig og starfsfólkið í kringum mig. Núna þegar styttist í tónleikana fæ ég gríðarlega góða tilfinningu í hjartað, lagavalið er rétt, lögin eru í réttri röð, uppbygging á tónleikunum er falleg og rétt og ég get ábyrgst að þetta eru tónleikar sem gera lífið betra. Laugardalshöllin verður síðan óþekkjanleg, þú hefur aldrei séð og upplifað hana svona. Við förum alla leið til að gera tónleikana að ógleymanlegri upplifun.“

Mynd: Mummi Lú

Ævistarfið á tveimur klukkutímum

„Tónleikarnir eru ævistarfið mitt á rúmlega tveimur klukkutímum og ég gætti þess að velja lög frá 1991 til dagsins í dag. Þriðjungur er ný lög, af Kristalsplötunni sem var að koma út, og restin er „hittarar“ og klassík. Það sem stendur upp úr þegar ég hlusta á þetta sjálfur er hve gríðarlega góð orka er í tónlistinni, hvað hún er melódísk og mikið heilalím, og ég er hissa á hvað sum af þessum lögum hafa elst vel og öðlast eigið líf fyrir löngu. Sem dæmi má nefna Stanslaust stuð sem var gefið út 1996 og virkar enn; „soundið“ virkar ennþá. Ég held að ástæðan fyrir því að þau hafa öðlast eigið líf sé einfaldlega sú að ekkert sem ég hef gert var í tísku á meðan ég gerði það.

Ég geri þá kröfu til minnar tónlistarinnar að í henni finnist ákveðin orka. Ef hún er ekki til staðar þá verð ég strax áhugalaus. Ég er með afar góðan mælikvarða á tónlist, sem er mjaðmirnar á mér, ef þær fara í gang og ég fer líkamlega að telja taktinn með laginu, þá erum við á réttri leið. Þegar melódían er komin og ég farinn að flauta með laginu, þá get ég treyst öðru fólki til að gera það líka. Þetta eru mælikvarðarnir sem ég hef alltaf notað á lögin, mjaðmirnar á mér og flautið.“

Mynd: Mummi Lú

Hvaða lag er í uppáhaldi?

Þegar Páll Óskar er beðinn um að velja á milli „barnanna“ sinna og velja sitt uppáhaldslag verður hann hugsi um stund. „Það er lag sem var á plötunni Allt fyrir ástina sem kom út árið 2007 og heitir Betra líf. Ég elska þetta lag, ég næ alltaf sömu fínu jarðtengingunni – fallegur boðskapur sem ég þarf að minna sjálfan mig á. Gríðarlega vel heppnuð melódía– skotheld popp melódía. Ég þreytist aldrei á að syngja þetta lag,“ segir Páll Óskar um lagið sem kom til hans frá Örlygi Smára og Niclas Kings, Páll Óskar gerði síðan íslenskan texta og lagið smellpassaði við hann.

„Þetta var bara röð tilviljana. Ég finn það strax ef lög eru að kalla nafn mitt. Að sama skapi, ef ég fæ prufuupptökur og demó af einhverjum lögum sem ég tengi ekkert við, er ég mjög snöggur að gefa þau lög áfram til söngvara sem ég veit að geta gert þeim betri skil en ég. Ég mæli ekki með að söngvarar troði sér í lög sem þeir valda ekki, það er eins og að troða sér í spariskó sem eru of litlir. Söngvari þarf að finna sjálfur hvort hann hefur burði til að syngja lagið eða ekki.“

Páll Óskar og Imperial hafa unnið sýndarveruleikamyndband við lagið Einn dans og í fjórar mínútur er áhorfandinn inni í diskóheiminum með Páli Óskari og dönsurunum.
Vertu með Páll Óskar og Imperial hafa unnið sýndarveruleikamyndband við lagið Einn dans og í fjórar mínútur er áhorfandinn inni í diskóheiminum með Páli Óskari og dönsurunum.

Mynd: Mummi Lú

Jólatónleikar og Rocky Horror taka við

Páll Óskar hefur lítinn tíma fyrir annað en tónlistina og að koma fram. „Eftir tónleikana hef ég tíma til að slaka aðeins á, svo byrjar undirbúningur fyrir jólatónleika, ég verð gestur á jólatónleikum Björgvins, ég og Monika ætlum að halda jólatónleika í Háteigskirkju, það höfum við gert síðan árið 2002. Síðan hefst undirbúningur fyrir Rocky Horror í Borgarleikhúsinu, æfingar fara á fullt um áramótin og við frumsýnum 16. mars 2018.“ Þar bregður Páll Óskar sér aftur í búning Frank-N-Furter, 27 árum eftir að hann lék hann í uppfærslu Menntaskólans í Hamrahlíð árið 1991.

„Oft var þörf en nú er nauðsyn,“ segir Páll Óskar aðspurður hvernig það sé að taka aftur þátt í Rocky Horror. „Við verðum að skoða þetta verk núna í okkar samtíma,“ segir hann með áherslu. Við, sem stöndum að þessu, ætlum inn í kjarnann á Rocky Horror-verkinu, skoða hann í krók og kring og sýna áhorfendum hann, við viljum gera bragðmikla Rocky Horror-sýningu. Styrkur söngleiksins felst í því að lögin eru svo brjálæðislega vel samin að þú gætir sungið þau í gallabuxum og bol og þau myndu samt svínvirka. Ég hlakka til að fara í þetta ferðalag í Borgarleikhúsinu og að fara í nýtt, kærkomið vinnuumhverfi.“

Spurður klassísku spurningarinnar, hvenær hann muni taka aftur þátt í Eurovision, svarar Páll Óskar að hann geti ekki svarað því. „Ég veit ekki hvað Rocky Horror gengur lengi, eitt eða tvö ár. Ef ég ætla að taka þátt í Eurovision verður lagið að koma fyrst, svo tekur við yfirlega ef maður ætlar að gera það vel. Fyrst og fremst þarf lagið að hafa kjöt á beinunum og sigra mig fyrst. Ef það gerist þá mun ég leggja af stað í Eurovision-ferðina.“

Löngu orðinn þjóðareign

Páll Óskar er löngu orðinn þjóðareign og segir það ekkert mál. „Ég þarf auðvitað að taka ábyrgð á minni eigin athyglissýki og ef hún felst í því að krakkar vilji sjálfu eða áritun þá segi ég aldrei nei. Eina hættan, sem er nýtilkomin með snjallsímunum, er þegar fólk, sérstaklega á föstudags- eða laugardagskvöldum, búið að fá sér í glas, keyrir þétt upp að mér í umferðinni og tekur snapp eða sjálfu út um bílgluggann. Þetta er stórhættulegt og mér stendur ekki á sama. Ég hægi bara á mér og leyfi hinum að keyra áfram og fara.“

Listamaður og framleiðandi

„Ég vissi alltaf frá því að ég var barn að ég yrði listamaður. Ég vissi ekki í hverju listsköpunin var fólgin og var svo sem slétt sama um það,“ segir Páll Óskar. „Núna held ég risatónleika þar sem ég þarf að syngja og dansa á sama tíma, með leikrænum tilburðum, þarf að hafa álit á búningahönnun, sitja yfir grafískri hönnun og myndböndum sem eru notuð eins og leikmynd, fara yfir útsetningar með hljómsveitarstjóranum og liggja yfir Ísa í Senu og plotta markaðsmál. Þannig að starfið mitt núna gengur ekki út á að halda á míkrófón og syngja. Ég er algjörlega í essinu mínu að fá að hafa yfirumsjón með öllum þessum þáttum. Þannig að rétta orðið yfir mig er að ég er framleiðandi, svokallaður „producer“, þar er mér rétt lýst. Þar líður mér best.“

Um leið og sýningin byrjar gleymir Páll Óskar sér gjörsamlega. „Ég fæ alltaf auka orku, einhvern veginn í ósköpunum fyllist tankurinn alltaf og ég gef og gef af mér, tæmi tankinn eins og ég þurfi aldrei oftar að troða upp í lífinu. Ég get ekki hamið þessa orku og mig langar ekki til þess.“

Langbesta lífernið er reglusamt líferni

Sjö til átta klukkustunda svefn á dag dugar Páli Óskari til að halda orkunni, hann lyftir líka tvisvar í viku og hugsar um mataræðið. „Ég nota giggin eins og brennslutíma. Langbesta lífernið er reglusamt líferni, alveg sama hver reglan er, þú finnur hana bara fyrir sjálfan þig.

Ef ég finn að skrokkurinn er þreyttur þá kann ég upphitunaraðferðir til að hita hann upp, sem og röddina. Ekkert ósvipað og boxarinn sem fer í hringinn og allur heimurinn er að horfa á, þótt bardaginn taki bara þrjár mínútur, þá er hann allan daginn að undirbúa sig. Sama geri ég á tónleikadegi, um leið og ég vakna eru tónleikarnir byrjaðir; þannig verð ég að nálgast þetta. Út af þessum ströngu umgengnisreglum við sjálfan mig þá tekst mér að vinna þetta starf og hefur tekist það í jafnmörg ár og raun ber vitni. Þetta hefst ekki öðruvísi, ég get ekki gert þetta í einhverju flippi,“ segir Páll Óskar kankvís.

Mynd: Mummi Lú

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni

Varpa ljósi á síðustu augnablik Liam Payne – Pantaði vændiskonur og fíkniefni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni

Segist vera hársbreidd frá því að hefja kynferðislegt samband með systur sinni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara
Fókus
Fyrir 3 dögum

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman