Marilyn Monroe sat fyrir á fyrstu forsíðu Playboy-tímaritsins árið 1953 og nú lítur allt út fyrir að Marylin Monroe og Hugh Hefner, stofnandi Playboy, muni sameinast á nýjan leik ef svo má að orði komast.
TMZ greinir frá því að Hefner hafi árið 1992 keypt grafreitinn við hlið Marilyn Monroe í Westwood Village Memorial Park í Los Angeles. Fyrir þetta greiddi Hefner 75 þúsund Bandaríkjadali, átta milljónir króna á núverandi gengi.
Hefner stofnaði sem kunnugt er Playboy-tímaritið en hann lést í fyrrakvöld, 91 árs að aldri. „Það er ekki hægt að láta það framhjá sér fara að eyða framhaldslífinu með Marilyn Monroe,“ sagði Hefner á sínum tíma.