Það er allt eins og það leggur sig að fara til fjandans. Heimsfaraldur, landris á Reykjanesi, blikur í efnahagslífinu, yfirvofandi kreppa, atvinnuleysi, sumarfrí í uppnámi, ferðaþjónustan fokkd, engin almennileg partí, krónan að hrynja og svo nú kemur enn einn skellurinn. Eurovision hefur verið aflýst. Þegar Svarthöfði fékk veður af þessari nýjustu vendingu í klösterfokki samtímans fannst honum jörðin gefa sig, allt varð óraunverulegt og Svarthöfði virtist fastur í tívolíbollum með metnaðarfullum starfsmanni sem hætti ekki að snúa bollanum aukalega. Skyndilega varð skikkja Svarthöfða nokkrum númerum of lítil og þrengdi óbærilega að hálsi hans. Svarthöfði ofandaði, hann kastaði upp og svo varð allt svart. Síðan rankaði hann við sér og öskurgrenjaði í sturtu, eins og sönnum Svarthöfða sæmir.
Það eina sem hann hafði að hlakka til á næstunni var hrifsað ómaklega úr höndum hans. Hvar er meðalhófið? Hefði í alvörunni ekki verið hægt að finna lausn, hafa áhorfendalausa keppni? Hvert land sendir út sjálfstætt? Hefði ekki mátt fresta henni? Opinbera útskýringin er meðal annars að það sé ekki í samræmi við erfðaefni keppninnar og sögu að hafa fjarkeppni, og að samkomubönn í Hollandi standi því einnig í vegi fyrir að keppnin verði haldin án áhorfenda. Þvílíkt bull. Í samræmi við verstu spár ætti faraldurinn að vera í rénun í maí, enda væru það tíðindi út af fyrir sig ef Evrópa sjái fram á samkomubönn í tvo mánuði í viðbót. Það eru þá að minnsta kosti tíðindi sem íslensk yfirvöld hafa ákveðið að grjóthalda kjafti yfir, en nóg kjaftar á þeim tuskan þegar kemur að því að tala um að vernda fyrirtækjarekstur og efnahag landsins. Hvað með almúgann og hans þarfir? Við viljum Eurovision. Það er árleg samkoma sem við nýtum til að fagna því að vera loksins skriðin upp úr skammdegisþunglyndinu, svo það er mikið í húfi.
Eina útskýringin sem Svarthöfði tekur mark á er sú að um evrópskt samsæri sé að ræða sem miði að því að ræna Ísland sigrinum sem við áttum nánast öruggt vísan, enda hefði ekki verið mikill vandi fyrir Daða og co. að heilla Evrópu eins og þau heilluðu íslensku þjóðina. Og nú er draumurinn dauður. Eftir situr Svarthöfði, eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, með draum um sigur sem dó.