700 manns komu saman um síðustu helgi þegar bæjarhátíð Seltjarnarness fór fram í fimmta sinn. Hátíðin í ár var sú umfangsmesta til þessa og dagskráin aldrei fjölbreyttari.
Hátíðin hófst með sundlaugarpartýi í sundlaug Seltjarnarness þar sem boðið var upp á laktósalausan ís og lifandi tónlist. Bæjarbúar skreyttu hús og lóðir samkvæmt litaþema, boðið var upp á hjólreiðatúr um nesið undir leiðsögn og svo var haldin hamborgaragrillveisla við Valhúsaskóla.
Hápunkturinn í þessari vel heppnuðu dagskrá var svo Brekkusöngurinn í Plútóbrekku þar sem fólk á öllum aldri mætti til að lyfta sér upp. Leikarinn og Seltirningurinn Jóhann G. Jóhannsson hélt uppi rífandi stemmningu með valinkunnu liði listamanna. Meðal annara stigu á stokk strákarnir í hljómsveitnni Tapír og bræðurnir Frikki Dór og Jón Jónsson stýrðu mjög vel heppnuðum fjöldasöng.
Stemningin í brekkunni var stórkostleg að sögn viðstaddra en talið er að um 700 manns hafi mætt á svæðið. Bæjarins beztu buðu upp á pylsur og Veislan bauð upp á rjúkandi heita íslenska kjötsúpu í brekkunni. Allt ákaflega þjóðlegt.
Framtakinu var vel tekið af bæjarbúum og fólk á einu máli um að bæjarhátíð Seltjarnarness væri sannarlega komin til að vera.