Valgeirsbakarí, Hólagötu 17, Ytri-Njarðvík
Jón Árilíusson og starfsfólk hans í Valgeirsbakaríi í Njarðvík er í óða önn að undirbúa Ljósanæturhelgina. „Hillurnar í Valgeirsbakaríi svigna undan mjög skemmtilegum og krassandi vörum og ætlum við hreykin að taka á móti fólki um helgina og sýna því afraksturinn af puðinu,“ segir Jón.
Í dag er Valgeirsbakarí verslun með brauðmeti og tertur. En kaffihús verður opnað á staðnum fljótlega.
Jón Árilíusson er eigandi Kökulistar sem keypti Valgeirsbakarí árið 2015 en bakaríið hefur starfað í 47 ár og er mikilvægur þáttur í bæjarlífinu í Reykjanesbæ. „Þetta hefur gengið framar björtustu vonum og ég þreytist ekki á að segja frá því að Suðurnesjamenn eru einstakt fólk. Góðir viðskiptavinir og mikill náungakærleikur ríkjandi. Hefur okkur verið tekið afskaplega vel hér.“
Eitt af sérkennum Kökulistar og Valgeirsbakarís eru súrdeigsbrauðin sem hafa notið fádæma vinsælda. Þar koma við sögu aldagamlar aðferðir í brauðbakstri þar sem ekkert ger er notað við framleiðsluna. Þetta er langtíma hefunarbrauð.
„Við verðum með nýjungar í þeim á Ljósanótt sem eru steinbökuð súrdeigsbrauð með kanill og rúsínum og einnig steinbökuð tómatabrauð og partíbrauð,“ segir Jón og heldur áfram að telja upp sitthvað af kræsingunum sem í boði verða:
„Við verðum með skemmtilega flóru af girnilegum tertum til að setja á kaffiborðið. Meðal nýjunga er skyrterta með hindberjahlaupi. Þá verður okkar sívinsæla núggat- og skógarberjaterta, sem og súkkulaðimousse með kirsuberjabragði og gana-súkkulaðibotni og valhnetu-marensbotni. Fjölmargar aðrar girnilegar og frumlegar tertur verða á boðstólum.“
Aðrar nýjungar er tartarskeljar með jarðarberjafyllingu og sítrónu- og mintutartar. „Síðan verðum við með margar tegundir af frönskum makkarónum ásamt svo öllu hinu góðgætinu okkar,“ segir Jón.
Valgeirsbakarí er staðsett að Hólagötu 17 í Ytri-Njarðvík. Um Ljósanæturhelgina verður afgreiðslutíminn lengdur og verður opið frá kl. 7 til 18 föstudag, laugardag og sunnudag.
„Við óskum öllum gleðilegrar Ljósanæturhelgar um leið og við bjóðum alla hjartanlega velkomna í Valgeirsbakarí þar sem borðin svigna undan kræsingum og góður andi mun svífa yfir vötnunum,“ segir Jón. Aðspurður segir hann að það sé alltaf geysilega mikið að gera á Ljósanótt og hann komi til með að bæta við heilmiklum aukamannskap til að anna fjöldanum sem mun leggja leið sína í bakaríið.