„Það voru stundir þegar það eina sem mig langaði til að gera var að æpa í koddann minn,“ segir Hillary Clinton í bók sinni What happened þar sem hún rekur hvað fór úrskeiðis í kosningabaráttu sinni. Hún hafði verið sannfærð um sigur og vonbrigðin voru því gríðarleg. Það tók hana tíma að jafna sig. Hún segir að í nokkrar vikur hafi hún æpt yfir sjónvarpsfréttum og einu sinni hefði hún komist nálægt því að kasta fjarstýringunni í vegginn. Hún segist hafa velt því endalaust fyrir sér hvað hún hefði átt að gera öðruvísi.
Hún talar hlýlega um hinn margótrygga eiginmann sinn, Bill Clinton, og segir að á kosningaferðalögum sínum hafi hún alltaf hringt í hann áður en hún lagðist til svefns. Hún fer hörðum orðum um Donald Trump og telur upp þá sem hún segir hafa lagt steina í götu hennar og má þar nefna Bernie Sanders, Vladimír Pútín, Wikileaks og forstjóra FBI, James Comey.
Í bókinni segir hún frá því að hún noti ákveðna aðferð við að slaka á, loki augunum, haldi fyrir hægri nösina og andi djúpt í gegnum þá vinstri og skipti síðan yfir í að halda fyrir þá vinstri og anda í gegnum þá hægri. Hún segir að þessi aðferð virki vel fyrir sig.
Bókin, sem er á metsölulistum vestanhafs, hefur fengið góða dóma. Gagnrýnandi The New Republic sagði þó að bókin væri skrifuð fyrir aðdáendur Hillary og ekki fyrir þá sem vildu raunveruleg svör um kosningabaráttu hennar og hefðu áhyggjur af því að Demókrataflokkurinn væri ekki að læra réttar lexíur af þeirri baráttu.