fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Hátíð lesenda og höfunda

Kolbrún Bergþórsdóttir
Sunnudaginn 10. september 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hátíð eins og þessi er mikilvæg vegna þess að hún beinir kastljósinu að bókum, höfundum og þýðendum og síðast en ekki síst lesendum. Þetta er hátíð lesenda og höfunda og það er mjög dýrmætt,“ segir Stella Soffía Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík sem nú stendur yfir.

Stella segist finna mjög greinilega fyrir áhuga bókmenntaunnenda á hátíðinni. „Fyrr í vikunni var dagskrá á Akureyri. Þar voru höfundar í viðtali með frábærum spyrli og síðan var orðið laust. Höfundar spurðu hver annan og lesendur komu með spurningar úr sal. Ég tók eftir því hvað lesendurnir voru vel undirbúnir. Þeir höfðu lesið verkin í þaula og komu með góðar spurningar til rithöfundanna. Þá fann ég sterkt hversu mikil lesendahátíð þetta er.

Í umræðu um mikilvægi bóklesturs er Bókmenntahátíðin framlag sem eflir umræðu um bókmenntir og slík umræða getur verið lestrarhvetjandi,“ segir Stella. Allnokkuð hefur dregið úr bóksölu hér á landi síðustu árin en Stella segist sannfærð um að hægt sé að snúa þeirri þróun við. „Ég er samt ekki endilega með töfralausn. En það þarf að bregðast við og skapa viðspyrnu. Ég sé samt að fólk er að lesa mikið, samanber fólkið á Akureyri sem er í bókaklúbbum og les verk þeirra höfunda sem koma fram á Bókmenntahátíðinni.

Bóklestur fer fram í einrúmi og þeir sem lesa eru ekki endilega að tala mikið um það. Bóklestur er almennur í ákveðnum aldurshópum en börn velja ekki endilega bókina fyrsta af öllu sem dægradvöl. Þess vegna er mikilvægt að börn sjái foreldra sína lesa bók. Ef foreldrar eru alltaf í símanum þá eru börnin það sömuleiðis. Hinir fullorðnu verða að vera góðar fyrirmyndir.

Minnkandi bóksala barst í tal meðal erlendu rithöfundanna og einn þeirra var með ráð til ungra rithöfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref. Hann sagði að þeir sem ætla sér að verða rithöfundar verði líka að vera duglegir að kaupa bækur. Þannig séu þeir að leggja sitt af mörkum til þess að það verði enn kaupendur að bókum þegar þeir gefa út sína fyrstu bók. Mér fannst þetta góð athugasemd.“

Nálægð við lesendur

Stella segir að mjög vel hafi gengið að fá erlenda höfunda á hátíðina. „Ísland er í tísku. Hátíðin okkar nýtur líka ákveðinnar sérstöðu af því hún er lítil miðað við erlendan mælikvarða. Höfundar sem eru vanir að lesa fyrir 3.000 manns koma hingað og lesa fyrir 200 manns. Þeim finnst gaman vegna þess að nálægðin við lesendur verður svo mikil. Annars staðar komast þeir yfirleitt ekki í svo beint samband við lesendur.

Ástæðan fyrir því að oft er auðvelt að fá höfunda hingað er líka sú að á hátíðinni er einn viðburður í einu, þannig að höfundarnir eiga auðvelt með að komast á viðburði sem þeir hefðu ekki annars haft tækifæri til. Þar eru þeir áhorfendur og þeim finnst það skemmtilegt. Á þessari hátíð myndast líka alltaf góð stemning meðal höfundanna. Þeir nota oft tækifærið og taka makann með eða börnin og búa til frí úr ferðinni.“

Búbót fyrir íslenska höfunda

Verk ýmissa höfunda sem mætt hafa á hátíðina hafa iðulega verið þýdd sérstaklega í tilefni hennar. Verk sem hefðu hugsanlega annars ekki verið þýdd á íslensku. „Við reynum að vinna vel með íslenskum bókaútgefendum, hlerum hvað er að koma út hjá þeim og skoðum hvort þar séu höfundar sem gætu komið á hátíðina,“ segir Stella. „Stundum vekjum við athygli útgefenda á tilteknum höfundi sem væntanlegur er á hátíðina, sem verður oft til þess að verk eftir viðkomandi er þýtt yfir á íslensku. Þetta krefst mikillar skipulagningar því þýðingarferlið er langt. Tímarit Máls og menningar hefur síðan birt greinar eftir höfunda sem koma á Bókmenntahátíð og þýðingar á verkum þeirra, sérstaklega ljóðaþýðingar eða smásögur auk þess sem skrifaðar eru greinar um höfunda.“

Meðan á hátíðinni stendur eru upplestrar öll kvöld í Iðnó. Þar koma þýðingar mjög við sögu. „Við þýðum heil ósköp fyrir alla upplestrana. Ef verk höfundar er ekki til á íslensku þá frumþýðum við það og fáum til þess mjög færa þýðendur. Þegar upplestrar eru í Iðnó þá er þýðingunum varpað á skjá, þá þýðingu sem er hægt að nota seinna ef einhver útgefandi ákveður að skella sér í útgáfu á verkinu,“ segir Stella.

„Þeir höfundar sem lesa á íslensku fá enska þýðingu á skjáinn og höfundar sem lesa á ensku fá íslenska þýðingu en höfundur sem les til dæmis á dönsku fær bæði þýðingu á íslensku og ensku. Þá vörpum við íslensku þýðingunni á vegg og dreifum ensku þýðingunni.

Þýðingarnar koma sér sérstaklega vel fyrir íslensku höfundana því þeim er frjálst að nota þær þýðingar til að koma sér á framfæri gagnvart erlendum útgefendum. Erlendir útgefendur lesa sjaldnast íslensku þannig að þetta er mikil búbót fyrir íslensku höfundana.“

Sendiherrar bókmenntanna úti í heimi

Hátíðinni lýkur á laugardag en á sunnudag er haldið þing í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, þar sem þýðendur og höfundar mætast. Þar verður dagskrá með þeim þýðendum sem hlutu heiðursverðlaunin Orðstír í ár, en það eru verðlaun til þýðenda af íslensku á erlend mál. Til verðlaunanna var stofnað fyrir tveimur árum af Bókmenntahátíð, forsetaembættinu, Íslandsstofu og Miðstöð íslenskra bókmennta.

„Þýðendur eru sjaldnast dregnir fram í sviðsljósið. Við vildum gera þeim hærra undir höfði,“ segir Soffía. „Þýðendur sem þýða af íslensku yfir á erlend mál eru sendiherrar íslenskra bókmennta úti í heimi. Þeir vinna gríðarlega mikilvægt starf. Ekki bara við að þýða heldur fara þeir um, þar á meðal á bókmenntahátíðir, oft með höfundinum, og tala fyrir bókunum hjá forlögum í útlöndum.

Verðlaunin eru veitt annað hvert ár, þegar Bókmenntahátíðin stendur yfir. Fyrir tveimur árum fengu Katrín Eyjólfsson og Erik Skyum Nielsen verðlaunin sem eru peningaverðlaun. Nú fá aðrir tveir erlendir þýðendur þessi verðlaun. Þessir þýðendur velja með sér íslenskan rithöfund sem þeir hafa þýtt verk eftir og hafa hann sér við hlið í dagskránni. Þarna verður einnig annars konar stutt dagskrá með þýðendum og höfundum á léttu nótunum. Þessi viðburður er öllum opin. Þarna er verið að brúa bilið milli bókmenntahátíðar og þýðendaþings sem hefst á mánudaginn. Margir þýðendur sem verða á því þingi eru nú á Bókmenntahátíð.“

Þeir sem ekki hafa enn mætt á Bókmenntahátíðina ættu að gera bragarbót á því. Þeir geta til dæmis, í Norræna húsinu á hádegi á föstudag, hlýtt á viðtal við Booker-verðlaunahafann Han Kang en verðlaunaskáldsaga hennar Grænmetisætan er nýkomin út á íslensku. Á laugardagmorgun geta þeir á sama stað hlýtt á viðtal við sagnfræðinginn Timothy Snyder og seinna um daginn er viðtal við höfund Hafbókarinnar, Morten Strøksnes. Ástæða er til að minna á sérstaka barnadagskrá í Norræna húsinu á laugardag. Bókaball er síðan í Iðnó um kvöldið og þar verður eflaust mikið fjör.
Dagskrá Bókmenntahátíðar má finna á bokmenntahatid.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Zaha búinn að skrifa undir

Zaha búinn að skrifa undir
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Skriniar fer til Mourinho

Skriniar fer til Mourinho
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Allt klappað og klárt fyrir skipti Walker

Allt klappað og klárt fyrir skipti Walker
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hinsegin fólk í Bandaríkjunum leitar til Íslands eftir að Trump tók við völdum

Hinsegin fólk í Bandaríkjunum leitar til Íslands eftir að Trump tók við völdum