Vetrarveiði hófst í Mývatni 1. mars. Veiðin er með hefðbundnu sniði, en veitt er hóflega allan marsmánuð bæði í net og á dorg. Veiðin hefur farið rólega af stað, en aðstæður hafa verið með erfiðara móti. Mikill snjór er á ísnum sem er um 80cm þykkur. Silungurinn sem veiðst hefur er í góðum holdum og nokkuð er af stærri silungi allt að 5kg.
Um síðastliðna helgi var haldin vetrarhátíð við Mývatn þar sem heimamenn stóðu fyrir fjölbreyttri dagskrá. Meðal annars var bauð Veiðifélag Mývatns gestum og gangandi að prófa dorgveiði. Um 150 manns litu við og spreyttu sig við dorgveiðar.
Dorgveiðar voru órjúfanlegur þáttur í tilveru Mývetninga á árum áður en heimamenn stunda veiðarnar gjarnan sér til ánægju nú til dags, ekki síst á góðviðrisdögum þegar hlýna tekur.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Héðinn Sverrisson, reykmeistara á Geiteyjarströnd, með væna bleikju sem hann fékk á dorg á dögunum.