fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Pressan

Svæði 51 og geimverurnar – Leyndarhjúpur og samsæriskenningar – Hvað er rétt og hvað er rangt?

Pressan
Sunnudaginn 13. október 2024 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú eru rúmlega þrjátíu ár liðin síðan almenningur heyrði í fyrsta sinn um Area 51 í Nevadaeyðimörkinni í Bandaríkjunum. Allar götur síðan hefur svæðið verið hjúpað ákveðnum leyndarhjúp og samsæriskenningar hafa blómstrað enda hafa bandarísk yfirvöld gert sitt besta til að viðhalda leynd yfir þeirri starfsemi sem fer fram á svæðinu. En hvað er eiginlega rétt og hvað er rangt af því sem sagt hefur verið og ritað um svæðið?

Svæðið, sem er í raun herstöð, er algjörlega lokað almenningi og þar er öflug gæsla. Þetta hefur að vonum ýtt undir samsæriskenningar og samsæriskenningasmiðir hafa varpað ýmsu fram um það sem þeir telji gert á svæðinu. Ein vinsælasta og umtalaðasta samsæriskenningin er að risastór rannsóknarstöð sé þar neðanjarðar þar sem bandarísk yfirvöld geymi geimför vitsmunavera frá öðrum plánetum og séu að rannsaka þau og að ekki sé útilokað að þar séu einnig geimverur í haldi. Upp úr þessu hefur myndast ákveðinn poppkúltúr og dulúð tengd meintum heimsóknum frá öðrum plánetum hingað til jarðarinnar.

Ef fólk hyggst mæta á svæðið til að sjá fljúgandi furðuhluti og jafnvel geimverur er hætt við að það verði fyrir miklum vonbrigðum. Fyrir því eru aðallega tvær ástæður. Sú fyrri er að yfirvöld hleypa fólki ekki nærri svæðinu. Nellis Air Force Base sér um rekstur Area 51 og þar á bæ eru línurnar skýrar að sögn talsmanns herstöðvarinnar.

„Við ráðleggjum fólki að reyna ekki að komast inn á svæði sem nýtur alríkisverndar. Þeir sem brjóta gegn banni við því verða handteknir og afhentir viðeigandi löggæsluyfirvöldum og eiga sektir og saksókn yfir höfði sér.“

Sú síðari er að Area 51 sé bækistöð eftirlitskerfis Bandaríkjanna úr lofti og líklega ekkert annað. Sú starfsemi hófst á sjötta áratugnum þegar nokkrar af mikilvægustu njósnaflugvélum bandaríska hersins voru smíðaðar, prófaðar og að lokum sendar af stað til njósna. Sérfræðingar telja líklegt að svæðið sé enn og verði áfram notað af flughernum og leyniþjónustustofnunum til að þróa næstu gerðir njósnaflugvéla og önnur stríðstól.

Njósnaflugvélar

Ef sú er raunin er að á svæðinu fari fram ýmislegt tengt njósnastarfsemi hersins þarf ekki að undra að leyndarhjúpur hvíli yfir því. Mörgum Bandaríkjamönnum finnst að þeir eigi að fá að vita hvað fer fram á svæðinu og hafa samsæriskenningar og mýtur um starfsemina ýtt undir þetta.

Úr fjarska Hér sést glitta í svæðið.

Sérfræðingar telja almennt séð að Area 51 sé „fæðingarstaður njósna úr lofti“. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að svæðið er risastórt og var afskekkt framan af. Það er um 200 kílómetrum norðvestan við Las Vegas. Flugherinn segir að svæðið sé stærsta svæði heims á landi og það sem ræður yfir stærstu lofthelginni fyrir starfsemi hers á friðartímum. Svæðið er um það bil á stærð við Connecticut eða um 14.000 ferkílómetrar. Það er ósköp lítið þarna, að minnsta kosti að sjá. Eiginlega ekkert annað en eyðimörk fjarri öllu. Það var gert af ráðnum hug því þegar starfseminni var komið á laggirnar 1954 vildi Dwight Eisenhower, þáverandi forseti, að leynilegur staður yrði fyrir valinu. Tveir starfsmenn leyniþjónustunnar CIA voru gerðir út af örkinni til að finna vænlega staðsetningu fyrir rekstur njósnastarfsemi í háloftunum. Þetta þurfti að vera afskekktur staður þar sem hægt væri að gera tilraunir með nýjar njósnaflugvélar sem gætu fylgst með vopnabrölti Sovétmanna, þar á meðal kjarnorkuvopnabrölti þeirra. Leitin tók ekki langan tíma. Þeir fundu stað sem stóð algjörlega undir væntingum forsetans. Uppþornað vatn í miðju Nevadaríki. Svo vel vildi til að þetta svæði var þá þegar notað til leynilegrar starfsemi en þar var unnið með kjarnorkuvopn. Nánast útilokað var á þeim tíma að fólk reyndi að komast þarna inn, sérstaklega vegna þess að kjarnorkusprengjur voru sprengdar þarna í tilraunaskyni. Ekki leið á löngu þar til verkfræðingar, njósnarar og hermenn voru mættir á svæðið og breyttu því í „fæðingarstað háloftanjósna“.

Tvær flugvélar tengjast svæðinu sérstaklega sterkum böndum. Önnur er hin fræga U-2 sem var notuð til að fylgjast með vaxandi mætti Sovétríkjanna á sviði kjarnorku. Sovétmenn sprengdu fyrstu kjarnorkusprengju sína 1949 og byrjuðu þá að hrekja allar óviðkomandi flugvélar úr lofthelgi sinni til að viðhalda leynd yfir verkefninu. Af þeim sökum gátu Bandaríkjamenn ekki fylgst með því sem var að gerast en á þeim tíma réðu þeir ekki yfir gervihnöttum sem var hægt að nota til að ná góðum myndum. Af þessum sökum var byrjað að hanna og smíða U-2 vélina sem gat flogið í 70.000 feta hæð og flogið um 5.000 kílómetra án þess að taka eldsneyti. Vélin varð eitt mikilvægasta njósnatæki bandarískrar hersögu. Sem dæmi má nefna að í júlí 1956 var slíkri vél flogið langt inn yfir Sovétríkin þar sem myndir voru teknar sem sýndu að Sovétmenn höfðu ekki náð eins langt á hernaðarsviðinu og þeir vildu vera láta. Þetta veitti Bandaríkjunum vissu fyrir að þau stæðu Sovétríkjunum ekki langt að baki á því sviði. Þann 1. maí 1960 skutu Sovétmenn U-2 njósnavél niður í sovéskri lofthelgi. Flugmaðurinn var handtekinn og Sovétmenn náðu flugvélarbrakinu og neyddist bandaríski herinn til að viðurkenna njósnastarfsemi sína. Í framhaldi af því var SR-71 njósnavélin smíðuð á aðeins 20 mánuðum. Hún gat flogið í 80.000 feta hæð og á allt að 3.400 kílómetra hraða á klukkustund. Sem sagt of hátt og of hratt til að hægt væri að skjóta hana niður.

Hin fræga U-2 flugvél Notuð til að njósna um Sovétríkin.

Það var á þessum tíma sem svæðið fékk heitið Area 51. Flugskýlum var fjölgað sem og flugbrautum, íbúðarhúsnæði og annarri aðstöðu enda fór starfsemin vaxandi. En það dró ekki úr mikilvægi þess að halda starfseminni leyndri því kalda stríðið var í algleymingi. CIA kynti undir hugmyndum um að fljúgandi furðuhlutir væru á ferð við Area 51 því það hjálpaði til við að leyna því sem fór raunverulega fram þar, tilraunir með undarlega útlítandi flugvélar sem flugu hátt og á ótrúlegum hraða. Leyndin hvílir enn yfir svæðinu og því sem þar fer fram og stjórnvöld gera sitt besta til að viðhalda henni. Til dæmis er leynilegt flugfélag rekið sem flytur farþega til og frá svæðinu nær stanslaust alla daga. Einnig sjá verktakar, sem nefnast Cammo Dudes, um gæslu á svæðinu. Þeir klæðast felubúningum og aka um svæðið í ómerktum hvítum pallbílum og tryggja að óviðkomandi séu ekki þvælast þar.

Geimverurnar

Miðað við það sem fram kemur hér á undan þarf ekki að undra að Area 51 sé oft tengt við geimverur og fljúgandi furðuhluti. Svæðið er ekki bara dularfullt æfingasvæði hersins heldur einnig svæði sem er notað til njósnastarfsemi og í næsta nágrenni er unnið með kjarnorkuvopn. Það er því eðlilegt að hlutir á borð við dróna, flugvélar, sem sjást ekki í ratsjám, vopnatilraunir og heræfingar geti valdið því að fólk telji sig sjá fljúgandi furðuhluti. Allt þetta og meira til fer fram á Area 51.

Í frægu viðtali KLAS-útvarpsstöðvarinnar í Las Vegas við Bob Lazar, árið 1989, sagði hann að hugsanlega væru tengsl á milli Area 51 og geimvera. Lazar var „uppljóstrari“ sem hafði starfað á svæðinu og sagðist hafa séð eitt og annað þar sem staðfesti að þar væru fljúgandi furðuhlutir og geimverur. KLAS var fyrsti stóri fjölmiðillinn til að tengja svæðið við geimverur. Í viðtalinu kom fram að Lazar taldi að Area 51 væri eingöngu hannað til að vinna við eitt og annað sem tengdist geimverum og tækni þeirra.

Sterkur orðrómur Þættirnir X-Files voru byggðir á samsæriskenningum um Area 51.

Orðrómur um tengsl geimvera og Area 51 hafði verið á sveimi síðan löngu áður en viðtalið við Lazar var tekið eða allt síðan bókin The Roswell Incident eftir Charles Berlitz og William Moore var gefin út 1980. Í henni var farið yfir hrap dularfulls hlutar í Roswell í Nýju-Mexíkó 1947. Á þeim tíma sögðu fjölmiðlar að um „fljúgandi furðuhlut“ hefði verið að ræða. Herinn sagði að um veðurloftbelg hefði verið að ræða. Málið vakti ekki mikla athygli á sínum tíma.

Síðar hefur komið fram að Lazar sé talinn hafa logið til um menntun sína en hann sagðist vera með háskólagráður frá MIT og Cal Tech en þar kannast enginn við að hann hafi stundað nám. En hann var yfirvegaður og talaði af öryggi í fyrrnefndu viðtali og kannski má segja að honum hafi tekist að koma ákveðnum hugmyndum inn í huga fólks og þá verður ekki aftur snúið.

Frásögn hans kynti undir samsæriskenningum sem hafa þróast með tímanum og náð fótfestu í poppmenningu samtímans. Þar má nefna kvikmyndina Independence Day og sjónvarpsþættina X-Files.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Pressan
Í gær

Uggandi auðmaður varaði kollega sína við afleiðingum misskiptingarinnar – „Þá verður heygöflunum beint að okkur“

Uggandi auðmaður varaði kollega sína við afleiðingum misskiptingarinnar – „Þá verður heygöflunum beint að okkur“
Pressan
Í gær

Musk segir að heimilisleysi sé ekkert annað en lygar og áróður

Musk segir að heimilisleysi sé ekkert annað en lygar og áróður