Fari svo að COVID-19 smit fari að berast manna á milli hér á landi kemur til greina, samkvæmt Landlækni, að grípa til víðtækari ráðstafana á borð við samkomubann. Tilfellum hefur farið ört fjölgandi og hafa ýmis fyrirtæki og stofnanir tekið sjálf af skarið með því að aflýsa stórum samkomum.
Árshátíðir fyrirtækja eru gjarnan algengar í kringum þennan tíma og hafa margir, íslenskir vinnustaðir hætt við sínar samkomur eða frestað þeim fram að hausti. Eftirfarandi fyrirtæki eru þeirra á meðal þeirra sem hafa nú afbókað sína sali.
Stoðtækjaframleiðslufyrirtækið Össur frestaði sinni árshátíð fram á haust og fyrirtækið gaf út tilkynningu þar að lútandi Það þótti skynsamlegt því starfsmenn fyrirtækisins ferðast til útlanda vegna vinnu sinnar. „Starfsfólk hefur sýnt þessu skilning en fyrirtækið starfar á heilbrigðissviði og innan þess geira hefur að undanförnu verið gripið til aukinna varúðarráðstafana vegna kórónaveirunnar,“ segir í tilkynningunni.
Árshátíð Póstsins, sem fara átti fram 21. mars, var einnig frestað í ótilgreindan tíma. Forstjóri Íslandspósts hefur fullyrt að enginn starfsmaður sé þar sýktur en óskynsamlegt væri að stefna fólki alls staðar að af landinu saman í sal, sem gæti aukið líkur á útbreiðslu.
Í tilkynningu frá Samorku segir að í ljósi þess að hættustigi almannavarna hafi verið lýst yfir vegna veirunnar hafi verið ákveðið að skjóta fyrrnefndum ársfundi á frest. Þar að auki verði sýningu á vegum fyrirtækisins í Laugardalshöll á hreinorkufarartækjum og lausnum tengdum orkuskiptum einnig frestað, en til hafði staðið að hún færi fram samhliða ársfundinum, dagana 12.–15. mars. Sýningin hefur verið færð til októbermánaðar.
Önnur fyrirtæki sem hafa slegið sínum viðburðum á frest vegna COVID-19