Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur samþykkt boð Dags B. Eggertssonar um fund sem hann lagði til í gær. Því fylgja þó tvö skilyrði, að hann birti opinberlega tilboð Reykjavíkurborgar frá 19. febrúar og mæti fulltrúa Eflingar í viðtali.
Hún skrifar eftirfarandi til Dags á Facebook í dag:
„Sæll Dagur. Það er erfitt að skilja hvers vegna þú vilt ekki ganga til samkomulags. Ég er að sjálfsögðu tilbúin að hitta þig á fundi eins og þú leggur til, en með tveimur skilyrðum:
Í fyrsta lagi að þú birtir opinberlega það tilboð (glærurnar) sem samninganefnd minni var kynnt á samningafundi 19. febrúar, daginn sem þú mættir í Kastljóssviðtalið, þannig að allir geti borið tilboðið saman við ummæli þín í Kastljósinu.
Í öðru lagi að þú fallist á að mæta mér eða öðrum fulltrúa Eflingar í setti í útvarps- eða sjónvarpsviðtali áður en vikan er úti.
Ef þú fellst á þetta þá skal ég koma og hitta þig til fundar á hvaða tíma sem hentar þér.
Kveðja, Sólveig Anna Jónsdóttir“
Sem kunnugt er þá lagði borgarstjóri fram tilboð í Kastljósi fyrir skemmstu sem Efling segir að hafi aldrei borist inn á borð samninganefndarinnar. Í gær bauðst síðan Efling til þess að fara í verkfallshlé ef Kastljós-tilboð Dags yrði staðfest opinberlega, en verkfall Eflingar hefur staðið yfir síðan 17. febrúar.
Í kjölfarið bauð Dagur Eflingu á fund og sagðist standa við tilboðið:
„Ég fagna því að Efling opni á að fresta verkföllum. Ég stend að sjálfsögðu við allt sem ég sagði í Kastljósi á sínum tíma en það er ekki gagnlegt þegar reynt er að að snúa út úr þeim yfirlýsingum eða standa í skeytasendingum í fjölmiðlum til að leysa kjaradeilur. Gott tilboð borgarinnar um að hækka laun Eflingarfólks hjá borginni liggur fyrir, með sérstakri áherslu á að bæta lægstu laun og kjör kvennastétta. Tilboðið er á grunni lífskjarasamninganna, með lengingu orlofs og útfærslu á styttingu vinnuvikunnar. Í stað þess að standa í frekari skeytasendingum í fjölmiðlum vil ég bjóða Sólveigu Önnu formann Eflingar til fundar til að ræða hina erfiðu stöðu viðræðna og hvar ber á milli aðila,“
skrifaði Dagur.